. - Hausmynd

.

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Landslagsmyndir

Í gærkvöldi fór ég með fjall-myndarlegum og bráðhressum dömum út að mynda. sótti þær á mínum fjalla bíl, Yaris og skunduðum við af stað út í óbyggðirnar. Við keyrðum eins og vegurinn lá og ef komu gatnamót, var kastað upp á hvort yrði farið til vinstri eða hægri (svona allt að því).

Náði nokkrum góðum myndum af þeim 99 sem ég smellti af svo ég get ekki kvartað mikið.

Hér eru myndirnar. Ég veit að þær eru ekkert VÁ! en allavega þá var þetta bráð-skemmtilegur túr og hlakka svo sannarlega til að endurtaka hann sem allra fyrst. Joyful

Yfir Hafnarfjörð
landslag 2
landslag 3
landslag 4
landslag 5

tómlegt í koti

Það er búið að vera tómlegt í kotinu. Viktoría hefur reyndar verið meira og minna heima, mér til halds og trausts. hafði það af að taka til í ruslakompunni hennar Sunnu, tók að vísu 3 daga að fara í gegnum allt draslið og sortera.....almáttugur hvað börnin eiga mikið af drasli.

Dísin mín fagra kemur heim seint í kvöld eða eitthvað eftir miðnætti. Hún er búin að vera með vinkonu sinni á Höfðaströnd í Jökulfirðinum síðan 6. júní. Heyrði í henni nokkrum sinnum og í síðasta skiptinu sem ég heyrði í henni var hún farin að eygja augunum heim í mömmu kot. Ekki skrítið.

Í stað þess að missa sig í fjarveru frá heimili, hef ég verið heima meira og minna. Mamma hefur boðið mér í mat 2x sem er bara frábært. Finnst eins og Stefán og Sunna séu búin að vera í burtu í margar vikur!!! (eru samt ekki "nema" 3 dagar). Ótrúlegt hvað maður saknar þeirra fljótt. Ekki það að okkur Viktoríu hefur liðið mjög vel saman....í sitt hvoru herberginu...í sitt hvorri tölvunni....ekkert spjallað saman....nei...GRÍN Tounge

Fórum saman í Bíó á föstudaginn. Mjög fínt. Á myndina "Big Stan". Mátti alveg hlæja að henni.

Fórum svo að mynda og tók ég þessa mynd þá.

The Pearl


Grísir til læknis

Ég ákvað að fara með naggrísina Mikka og Snopy til læknis þar sem ég vildi láta sprauta þá gegn húðmaurum og svona almenna heilsufarsskoðun í leiðinni. Var búin að panta tíma og átti tíma í morgun kl 9.

Ég útbý kassa og set dagblöð, sag og korn í hann ásamt mat og grænmeti, næ í gaurana og skelli þeim í kassann. Þeir voru skelkaðir að fara í nýtt umhverfi og ekki skánaði það að vera troðið inn í bílinn og ekið af stað.

Ég rogaðist með kassann inn á dýralæknastofuna í Garðabæ og setti þá á borðið og hlammaði mér svo í stólinn eftir að hafa tilkynnt þá inn og gefið upp nafnið á þeim félögum. Áttaði mig skyndilega á því að ég hafði farið út án þess að grípa með mér veskið svo nú voru góð ráð dýr. Vandræðaleg sagði ég stelpunum í afgreiðslunni frá vandræðaganginum og var ekkert mál að fá að millifæra á þær eða koma bara aftur þegar ég væri búin að sækja veskið. Ég ákvað að hinkra og renna heim eftir læknisskoðunina og sækja veskið.

Við hliðina á mér á stofunni sat kona með svartan kött í fanginu. Kötturinn sá arna leit lostafullur á kassann og ég sá alveg í hvað stefndi. Rófan á svarta kettinum var farin að sveiflast full mikið til og teygði hann meira og meira úr hálsinum í áttina að kassanum svo mér var ekki farið að standa á sama. Ákvað í góðmennsku minni að ná í einn grísinn í kassann og halda á honum. Snoopy var í fanginu á mér þegar Mikki var farin að láta í sér heyra. Hann var afbrýðisamur að fá ekki að vera með líka svo ég ákvað að ná í hann og hafa þá bara hjá mér svo kötturinn myndi ekki hafa frekar áhuga á veiðimennsku.

Strákarnir voru ansi stressaðir og vildu þeir fara inná mig svo ég greip Snoopy og ætlaði að taka hann út úr hálsmálinu á mér en eitthvað var hann hvumpinn og í stað þess að sleppa klónum af hálsmálinu, beit hann mig í fingurinn. Ég vildi ekki vera með óhljóð á stofunni svo ég hvæsti á Snoopy að sleppa fingrinum annars hefði hann verra af. Ekki sleppti hann takinu og ekki gat ég hrist hann af mér því þá hefði ég hlotið enn verri skurð á fingurinn svo ég reyndi að láta lítið á þessu bera en var alveg sannfærð um að ég var orðin græn í framan við að halda niðri sársauka stununni. Skyndilega er eins og dýrið hafi áttaði sig og sleppti fingrinum sem var orðinn ansi dofinn af sársauka því tennurnar í þessum dýrum eru brjálæðislega beittar.

Ég setti þá í búrið jafn hraðan og reyndi að fela vegsummerkin af blóðinu sem dropaði úr fingrinum á mér. Sár kvalin krosslagði ég hendur og litaðist í kringum mig eftir plástri eða einhverju til að þurrka mesta blóðið í burtu. Það eina sem ég fékk út úr þessu var að bolurinn minn var allur út í blóði en það vildi því til happs samt að ég var í rauðum bol svo það sást ekki svo glatt blóðblettirnir. Fljótlega hætti samt að blæða en eftir stóðu tvö "vegleg" göt í vísifingri, ofaná og neðan.

Loks komumst við inn til dýralæknisins sem skoðaði þá fram og til baka og dásamaði hvað þeir væru góðir og leyfðu henni að toga þá og teygja. Svo kom sprautan og Sunna dýralæknir bað mig um að halda í framlappirnar svo hún gæti sprautað í hnakkann og ég var sannfærð um að dýrið myndi læsa tönnunum í handarbakið á mér til að láta í ljós óánægju sína. Aumingja Snoopy ýlfraði eins og stunginn grís þegar hún sprautaði en sem betur fer læsti hann ekki tönnunum í mig heldur lét það nægja að ýlfra. Sömu sögu var af Mikka greyinu sem ýlfraði eins og Snopy við sprautuna.

Með sáran fingur og móðgaða grísi, renndi svo heim og náði í veskið mitt og brunaði að borga þjónustuna. Eigum tíma eftir hálfan mánuð í sömu pyntingameðferð....verð bara með járnhanska Tounge


Tönn í óskilum

Það kom að því að litli gormurinn minn yrði "fullorðin".

Stefán minn er kominn í sumarfrí og átti að gerast "heimavinnandi húsfaðir" með öllum þeim köllum og skyldum sem sá titill fylgir. Hann gerðist samt rosalega duglegur og málaði húsið svo ég fyrirgaf honum undir eins heimilisverkaleysið. Svo kláraði hann það og til að koma sér undan öllum skyldum þá ákvað hann að fara norður á Hótel Mömmu með litla gorminn með sér.

Í gær ákvað hann samt að hafa gott að borða handa okkur svo hann fór í búðina með Sunnu með sér og verslaði inn. Það var gott og blessað nema að tönnin sem var búin að vera laus ansi lengi hjá Sunnu litlu, losnaði endanlega þegar þau voru að versla í Fjarðarkaup. Auðvitað þurfti hún að handfjatla tönnina og á endanum missti hún hana úr höndunum á sér (en ekki hvað) og þrátt fyrir leit, fannst hún ekki. Það var mikil sorg hjá minni því hún var búin að heyra svo oft talað um Tannálfinn og hann væri sko ekki minna gjafmildur en sjálfur jólasveinninn.

Stefán náði að róa hana með því að Tannálfurinn fengi alveg vitneskju um tannmissi svo hún þyrfti ekki að óttast. Það passaði, um leið og hún vaknaði í morgun, kíkti hún undir koddann og viti menn....þar lágu FULLT af peningum og meira að segja einn rauður seðill.

Hún hentist framúr til að sýna pabba sínum hvað Tannálfurinn var gjafmildur þrátt fyrir að sönnunargögnin um tönnina hefðu aldrei verið til staðar.

Hún skellti klinkinu í baukinn og hljóp fram með seðilinn í hendinni, velti honum aðeins í lófanum og kom svo til mín aftur mjög djúpt hugsi á svip og spurði mig hvort ég ætti ekki svona "seðla sléttujárn". Mér fannst þetta fyndið og leit á seðilinn þar sem hann var dálítið krumpaður en hugreisti hana á því að hann myndi sléttast í seðla-umslaginu. Hún tók þessu sem gott og gilt og fylgdist vel með því þegar ég stakk seðlinum í umslag merktu henni.

Nú njóta feðginin lífsins á Akureyri í rjómablíðu (eins og alltaf að sögn Akureyringa) og ekkert vitað hvenær þau koma heim aftur. Viktorían mín aldrei heima, Sandra Dís enn með vinkonu sinni á Höfðaströnd fyrir vestan (en fer nú að koma heim) svo eftir sit ég ein í koti....hálf tómlegt. Fór reyndar aðeins út að mynda í kvöld....og ætla svo sannarlega að gera það aftur á morgun...og laugardag....Tounge

fugl í fæðisleit

Snoopy stunginn af

Ég aðstoða börnin í að sjá um þessa naggrísi sem er bara mjög fínt. Set hreint í búrið þeirra á sunnudögum.

Síðasta sunnudag ákvað ég að gera hreint í búrinu þeirra eins og svo oft áður svo ég fer og bý til girðingu í garðinum fyrir dýrin sem þau geta verið í á meðan ég hreinsa og þá hafa þeir tækifæri til að bíta ferskt gras á meðan.

Girðingin er 20cm há og 9m² á grunnfleti og eru naggrísir ekki þekktir fyrir að geta stokkið mjög hátt svo þessi girðing er í fínni stærð. Hinsvegar las ég það á netinu að þeir eru ansi duglegir að redda sér og ef þeir vilja komast yfir einhverja hindrun, þá hópa þeir sér saman í hrúgu, klifra hver ofan á annan svo sá efsti fær sýnina yfir hindrunina og getur vegið og metið út frá því hvort það sé vit í að fara yfir. Naggrísir sjá í lit að einhverju leiti en þó samt ekki að öllu leiti.

Sunna var úti með vinkonu sinni svo það var ekkert á henni að græða að fylgjast með grísunum svo það kom í mitt hlutverk að fylgjast með þeim úti ásamt því að þrífa búrið.

Ég lít á þá öðru hvoru og sé bæði Mikka sem er mikill strokufangi og svo Snoopy sem er hæglátur og geðgóður strákur. Eitt skiptið sá ég bara Mikka strokufanga en ekki Snoopy sem er töluvert minni og nettari en taldi það bara vera að hann hafi hjúfrað sig upp við girðinguna svo ég varð ekki vör við hann. Ákvað klukkutíma síðar að nú væri tími til kominn að koma þeim inn í búr svo ég fór út til að ná í þá. Ég greip í tómt...eða næstum. Snoopy var farinn en eftir sat Mikki jórtrandi á grasinu.

Ég ákvað að leita af honum og fékk Sunnu með mér í lið en eftir klukkustundar leit gafst ég upp. Viktoría kom heim skömmu síðar og fékk hún að fara út að leita líka. Aftur fer ég út að leita og í bókstaflegri merkingu lá ég á fjórum fótum að leita á milli allra trjáa í 100 metra radíus og undir hverja þúfu en allt kom fyrir ekki.

Ég gaf hann upp á bátinn þó það hafi verið sárt. Hélt kannski að Sunna myndi gera það líka....en það var misskilningur. Hún leit á mig með stór augu og ekki laust við að þau væru vot og grát bað mig um að leita meira, við gætum bara ekki látið hann vera úti um nóttina. Þegar þarna var komið var klukkan hálf ellefu og krakkinn átti að vera farinn í rúmið. Ég ákvað að fara einn rúnt um hverfið með henni og leita enn einu sinni. Snoopy hafði verið týndur í 8-9 klukkustundir og nánast útilokað að finna hann aftur. Gæti hafa orðið ketti að bráð.

Þegar við Sunna vorum búnar að leita í næsta nágrenni án árangurs, fórum við heim. Ákváðum að fara einn rúnt í kringum húsið. Skyndilega sá ég hvar lítið brúnt dýr kíkir fram úr illgresinu og sáum við að Snoopy hafði ratað heim aftur og var kominn. Hann var nokkuð fús að leyfa okkur að ná sér og miklir fagnaðarfundir voru á meðal dýrsins og Sunnu. Ég var hálf fegin að þurfa ekki að segja Söndru Dís frá því að ég hafði týnt dýrinu hennar.

Snoopy var feginn að komast í búrið og ekki laust við að það hefðu verið fagnaðarfundir í búrinu líka.

Í morgun þegar ég var að fara í vinnu vildi ég endilega að Sunna tæki dýrin út og viðra þau. Í þetta skiptið fékk Snoopy grísa ólina á sig og Sunnu skipað fyrir að halda í ólina inn í girðingunni. Þá sá ég hvernig hann gerir þetta.

Hann tekur tilhlaup og stekkur yfir girðinguna eins og um hindrunarhlaup væri að ræða.

Og svo er því haldið fram að naggrísir stökkva ekki.....ég hef sannanir fyrir öðru Pinch Nú verður honum ekki treyst einum úti í girðingunni. Hann hefur fyrirgert sínum rétti til þess. Nú fær hann viðurnefnið Snoopy hástökkvari Kissing


í blóma lífsins

Var að prufa "öðruvísi" blómamynd. Er ekki með macro linsu svo allar nærmyndir eru frekar erfiðar.

Hvernig leggst þessi í ykkur?

Er þetta eitthvað að gera sig?

blóm

Síðasti leikskóladagurinn

Ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða. Á morgun er síðasti dagurinn í leikskólanum hjá örverpinu mínu. Mikill spenningur að vera orðin STÓR.

Það var mikill höfuðverkur hvað átti að gera síðasta daginn. Fara með eitthvað handa fóstrunum eða gefa leikskólanum einhvern glaðning eða hvað.

Ég settist niður og lagði höfuðið í bleyti. Með hjálp góðra vina komst ég að niðurstöðu. Gefa eina rós og eitthvað fallegt kort. Ein vinkona mín benti mér á að nýta mér það sem ég lærði fyrr í vor svo ég settist niður og bjó til kort.

Þetta er niðurstaðan á kortinu.

kveðjukort

 Í IKEA skundaði ég svo í hádeginu að ná mér í hugmyndir. Ekki stóð á þeim og á hálftíma náði ég að hanna flotta gjöf sem ekki kostar svo mikið.

Þetta er niðurstaðan.

leikskólaslit 2

Vasinn er "plastpoki" sem fer ekkert fyrir þegar hann er tómur. Maður brýtur hann einfaldlega saman eftir notkun og setur ofan í skúffu og grípur í ef þarf. Góð hugmynd fyrir þá sem ekki þola að safna sitt lítið af hverju og vita ekkert hvar þeir eiga að geyma hlutina.

Rétt upp hönd sem á við það vandamál að stríða

"RÉTTUPPHÖND" Tounge 

Í grófum dráttum er kostnaðurinn þessi:

Plast"poka"vasar 3 saman á 95kr (keypti 2 pk) alls 190kr

ilmkerti í stjaka 3 saman á 495kr (keypti 2 pk) alls 990kr

Mozart súkkulaði kúlur 10 stk í poka 195kr (keypti 3 poka) alls 585kr

rósabúnt 7 stk í búnti á 990kr (keypti 3 búnt) alls 2.970kr

sellófan á 395kr og pakkaband á 85kr, alls 480kr

Platti undir vasann og kertið á 0kr (fékk það úr vinnunni)

í heildina kostaði þetta 5.215kr og deilist á 6 konur sem eru þá 869kr pr fóstru.

Verð að segja að það er vel sloppið miðað við allt sem ég keypti. Þær fá þó blóm, nammi og kerti í kveðjugjöf Smile

Fleiri myndir

leikskólaslit 5
leikskólaslit 4
leikskólaslit 3

Aðgerð yfirstaðin

Þegar bangsar koma úr hýði sínu eru þeir svangir....MJÖG svangir. Það er engin undanskilin regla á mínum bangsimon sem heitir Hólmfríður Sunna. Þegar hún vaknar á morgnana er hún SVÖNG og engum griðum gefinn. Þess vegna var ég ansi ósanngjörn í morgun að leyfa henni ekki að borða sinn morgunmat heldur bara að gefa gestunum okkar eitthvað að borða.

Til að hlífa henni frá því að horfa á okkur borða, þá skellti ég henni bara í bað í morgun á meðan við hin skelltum í okkur hinum ýmsum kræsingum til þess að starta deginum.

Við vorum svo komnar á barnadeildina kl 11:30 í morgun og þar var okkur bara strax fylgt að rúminu hennar og okkur sýnd deildin og okkur svo boðið að skreppa á leikstofuna að sækja okkur DVD myndir að horfa á.

klukkan 12:30 var svo dömunni gefin kæruleysistafla sem hún sturtaði í sig án vandkvæða og stóð ég eftir með opinn munninn, alveg gáttuð á því að barnið kynni að gleypa töflu!!

Ekki virtist taflan vera farin að virka þegar hún var svo kölluð inn á skurðstofu og kjaftaði hún okkur í kaf á meðan ég og hjúkkan keyrðum ranghala ganga fram og til baka, upp með þessari lyftu, niður með lyftunni á horninu og upp með annarri á öðru horni og missti ég alveg sjónar á því hvar í byggingunni ég var og tel ég mig þekkja þessa ganga ansi vel.

Stefán var á leiðinni og ætlaði sér að ná áður en hún færi í svæfingu...ekki endilega barnsins vegna, frekar svona mín vegna. Taldi mig hafa tekið þennan "dóm" út þegar Dísin mín barðist við krabbamein á sínum tíma og langaði ekki að upplifa aftur þessa erfiðu stöðu að sjá barnið svæft og keyrt í burtu og ég veit svo ekki neitt.

Þegar við komum inn á skurðstofuna tók vaskur hópur á móti okkur. Allt mjög geðugt fólk sem heilsaði og manni leið strax vel innan um það. Leit samt reglulega út um gluggann til að athuga með Stefán og sendi honum svo sms um hvar við værum.

Svæfingalæknir kemur inn og ræðir aðeins við okkur og um leið skellir hún svo lyfinu í æðarlegginn og um leið og þau sögðu hvað þau voru að gera bað ég barnið um einn koss áður en hún sofnaði og hélt ég utan um hana, kyssti hana á kinnina og með það var hún sofnuð og vissi ekki meir.

Mér var fylgt fram. Þegar þangað var komið ákvað ég að hringja í Stefán og þegar síminn hringir heyri ég í tónunum. Hann var bara á horninu....týndur í ranghala spítalabyggingarinnar.

Við förum og fáum okkur að borða og við vorum rétt búin að því þegar síminn minn hringir. Þetta var á vöknun, þeir búnir. Ég leit á klukkuna og sá að þeir hafa ekki verið nema 20 mínútur frá því ég fer fram á gang þar til vöknun hringir.

Í hendingskasti förum við upp á vöknun og þar liggur prinsessan með súrefni og mjög friðsæl. Læknirinn kemur til okkar og segir við okkur að þetta hafi verið mun sakleysislegra en gert var ráð fyrir í fyrstu og í þetta skiptið var engin hætta. Þetta var nefnilega röng sjúkdómsgreining!!!! W00t Mér fannst þetta ekkert fyndið en rétta sjúkdómsgreiningin var mun hættu minni en þessi sem hún fékk í fyrstu. Þetta var "bara" einföld veirusýking sem börn bera og kallast þetta Frauðvörtur. Þeir skáru þessa stóru af því hún var með sýkingu í sér sem hún virtist ekki vinna sjálf á og skáru fleiri í burtu sem þeir sáu. Ég hafði ekki tekið eftir öðrum vörtum hjá henni svo ég kom af fjöllum. Við áttum svo að koma á göngudeildina eftir þörfum og ef hún nær ekki að losa sig við sýkilinn sjálf, ætla þeir að sjá hvað þeir geta gert.

 Við sitjum hjá henni í rúma klukkustund og þá ákvað ég að fara að strjúka henni, hún vaknar með það sama, hálf vönkuð sest hún upp í rúminu og hefur ekki hugmynd um hvar hún er. Við ræðum við hana í dágóða stund. Hjúkkan af barnadeildinni kom svo og sótti okkur og fór á barnadeildina. Þar sátum við saman, hún með fartölvuna í rúminu, horfandi á diskana sem hún hafði fengið lánaða og við í þessum grjóthörðu og ömurlegum sófum sem eiga að heita Svefnsófar fyrir foreldra. Mikið var ég fegin að heyra að við gætum farið heim um kvöldið...ekki að sofa á þessum vonda svefnbekk. Mikið vorkenni ég fólkinu sem þarf að gista á þessum bekkjum dögum og jafnvel vikum saman.

Sunna kemur hægt og rólega til sjálfrar síns og hún fær svo svala og ristabrauð til að laga sárasta hungrið. Rétt fyrir sex var okkur svo sagt að við mættum fara heim ef hún nær að pissa. Stefán fer með hana á klósettið og þar náði daman að pissa svo spenningurinn var svo mikill að komast heim aftur að henni var bara vippað í fötin með því sama en þá fór ógleðin að taka völdin hjá dömunni. Sick Við ákváðum að leyfa henni að sitja smá stund og jafna sig.

Stefán hélt á henni svo út og setti hana í bílinn. Ég var á Yaris en hann var á vinnubílnum svo við urðum að skipta liði. Ég ákvað að þjóta heim með hana og hann að fara í búðina því hún hafði pantað kvöldmat (því bangsi var svangur) og vildi endilega að það yrði íslenskt svínakjöt með íslenskum kartöflum. Því varð Stefán að fara í búðina til að uppfylla óskir barnsins.

Á leiðinni heim sá ég að barnið var kannski ekki alveg hún sjálf. Ég marg spurði hana hvort ekki væri allt í lagi en hún játti því. Svo kom hjá henni í Garðabænum að nú yrðum við bara að stoppa á rauðu ljósi.....henni væri svo illt í maganum. Ég opnaði gluggann til að fá ferskt loft inn en rétt áður en við náðum heim kastaði barnið upp. Ég skellti bílnum í kantinn og fór aftur í til hennar þar sem hún hélt áfram að kúgast og kúgast. Bíllinn var geðslegur og með öllu sem því fylgir.

Þegar heim var komið var ekkert annað hægt að gera en að klæða barnið úr hverri spjör og setja í þvottavél. Þvo henni og gefa henni vatnssopa. Hún hresstist töluvert við þetta og var orðin enn svengri en áður og ýlfraði eftir mat.

Núna skoppar barnið um alla íbúð og sá sem sæi hana núna gæti ekki gert sér í hugarlund að ekki fyrir svo mörgum klukkutímum síðan var hún í móki vegna svefnlyfja. Ótrúlegur hæfileiki barnanna að hrista af sér slenið.

 

á vöknun

Ljósmyndir

Ég hef stofnað nýja síðu sem er með lénið ljosmyndir.blog.is. Þar mun ég setja inn myndir frá viðburðum sem ég fer á. Þarna mun samt ekki vera fjölskyldualbúm, það mun áfram vera á þessari síðu ásamt blogginu mínu.

Endilega kíkið við á ljósmyndirnar mínar.

Mugison-2

Höfuðborgin Akureyri

Við skruppum til Akureyrar og höfum notið veðurblíðunnar hér. Ótrúlega fallegt veður.

Ég bauð mig fram við AIM festival þar sem þeir auglýstu eftir áhugaljósmyndurum til að taka myndir og þáðu skipuleggjendur hátíðarinnar nærveru minnar. Fór semsagt á lífið í gær með mína myndavél á öxlinni sem er ekki "nema" eitt og hálft kíló.

Á leiðinni á milli staða tók ég þessa mögnuðu mynd. Hún er í nettu uppáhaldi hjá mér núna.

Hvað finnst ykkur?? Smile

Akureyri

Næsta síða »

hin fagra

Helga Linnet
Helga Linnet

sú eina sanna

Slakaðu á og njóttu lífsins, þú munt aldrei lifa þennan dag aftur

Smelltu á þetta...

vinsældarlistinn

smá könnun

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

270 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband