. - Hausmynd

.

Ferðasagan

Dagur 1. 

Lagt frá Keflavík kl 7 eftir um klst seinkun. Flugið sóttist vel. Maður var ekkert farinn að sofa og gleypti eina svefntöflu eða svo fljótlega þegar komið var inn í vélina svo maður andaðist ekki úr pirringi næstu 10 tímana. Svefntaflan virkaði fljótt og örugglega og vissi ég ekki af því þegar vélin fór í loftið (en það er minn versti tími). Enda var maður orðinn ótrúlega þreyttur, ekkert farinn að sofa síðan nóttina þar áður.Við komum út kl 13:15 að staðartíma en þá var klukkan 18:15 heima. Hitinn var gríðarlegur og rakinn líka. Okkar beið 2 tíma keyrsla með rútu til Havana en við lentum í Varadero. Komum á hótel Occidental Miramar í Havana um kl 17. Þetta var mjög flott hótel í alla staði. Hentum draslinu okkar upp í herbergi og lölluðum okkur niður að sundlauginni. Okkur var sagt það að þetta væri með betri hótelum í Havana og mikil öryggisgæsla. Það fengi enginn að vera með drykkjulæti eða dónaskap á hótelinu. Enda sá maður öryggisverði með heyrnatæki á öllum hornum! 

Dagur 2 

Fórum í kynnisferð um Havana. Þetta tók einhverja 5-6 tíma og vorum við með íslenskan leiðsögumann sem sagði okkur frá því helsta. Þá fyrst sá maður hvað var verið að tala um þegar talað var um fátækt!! Við höfðum skipt 40.000kr í Pesóa og þegar við réttum bankastarfsmanninum allan peninginn svitnaði hann. Ég var ekki að átta mig á afhverju þar sem þetta voru nú engar svaka upphæðir en þegar fararstjórinn sagði okkur að kúbubúar hafa að jafnaði 10 Pesóa í laun á mánuði skildi ég afhverju bankastarfsmaðurinn svitnaði. Þessar 40.000kr ísl voru um 500 pesóar. Ríkið á allt og ef það á það ekki þá eignast það það bara með einhverjum tiltækum ráðum til dæmis með því að skattleggja fyrirtækið það hátt að viðkomandi fyrirtækiseigandi á ekki möguleika á að hafa það opið. Ríkið borgar þar af leiðandi launin og hvort sem þú ert læknir, lögfræðingur eða vinnumanneskja í vindlaverksmiðju, þá eru allir jafnir og allir fá þessa 10 pesóa í mánaðarlaun. Reyndar eru þessir 10 pesóar heimfærðir í innlendan gjaldmiðil sem fólkið getur keypt fyrir og þá eru þetta 280 pesóar af innlendri mynnt og fyrir þá getur fólkið keypt það sem er á “miðanum” þeirra en mánaðarlega fær fólkið svokallaða skiptimiða með laununum og þessir innlendi gjaldmiðill dugir einungis fyrir það sem stendur á miðanum. Fólkið fær til dæmis að kaupa eina sápu á 3 mánaða fresti, 1 klósettrúllu á mánaðar fresti og svona má lengi telja. Ef það þarf meira af sápu þá verður það að hafa aðgang að skiptipesóum eða þessum pesóum sem hinn almenni ferðamaður hefur og kaupa sápur og nauðsynjavöru fyrir þann pening. Þetta gerir það að verkum að fólk fer á götuna til að betla ef það getur ekki búið til e-ð til að selja. Þetta er að sjálfsögðu sorgleg þróun en þetta sannar það að ríkið (eða maðurinn með skeggið) á fólkið. Það á enga möguleika á að flýja því það hefur ekki pening. Eins á þetta fólk ekki hús. Ríkið á húsin og úthlutar húsunum gegn leigu. Ef fólk vill skipta verður það að gerast innbyrðis því ekki er hægt að leita í fasteignablöðunum og sjá myndir af því sem til er!! 

Dagur 3 

Þá fórum við í Vinales dalinn. Það er dalur sem var fullur af sjó fyrir nokkur hundruð árum síðan. Vatnsborðið tók að lækka og dalurinn er það sem eftir stendur. Þetta var frábær ferð í alla staði. Fórum í smá bátsferð um Dropasteinshella og okkur sögð sagan á bakvið ýmislegt sem var inn í hellum. Ekki var laust við að maður sá móta fyrir steingerfingum. Þetta var 2 tíma akstur vestur af Havana. Rútan sem við skröltum í var svakaleg og ég tala nú ekki um rútubílstjórann sem steppaði inngjöfina eins og í heitum kúbönskum ástardansi!! Skelfilegt. 

Dagur 4 

Þá fórum við á markaðinn í gamla Havana. Enduðum á að fá hestvagn til að keyra með okkur um gamlabæinn. Báðum hann um að fara í skuggahverfin sem eru ekkert annað en allra fátækustu hverfin á Havana. Það var skuggaleg sjón að horfa upp á þessa gríðarlegu fátækt. Eitt kom þó á óvart að börnin voru hrein og vel til fara ásamt fólkinu. Þó svo að það hafði úr engu að moða þá hélt það sér hreinu og börnunum líka. Afskaplega kurteist fólk og kurteis börn og vel alin. Vildi óska að íslendingar héldi betur á spöðunum við uppeldi barna sinna. Um kvöldið fengum við leigubílstjóra til að keyra með okkur og sýna okkur menninguna að kvöldi til. Við borguðum honum fast gjald og hann rúntaði með okkur í 2 tíma, afskaplega þolinmóður. 

Dagur 5 

Skelltum okkur aðeins á sundlaugarbakkann áður en við skelltum okkur upp í rútuna til Varadero.Keyrslan til Varadero tók 2.5 klst. Það var erfitt þar sem var afskaplega heitt í veðri. Sem betur fer var kæling í bílnum. Við komum á hótelið sem heitir  Arenas Doradas og er byggt þannig upp að það er risa sundlaug með sundlaugarbar og allt í kringum sundlaugina eru lítil hús með 6-20 herbergjum öll með sér inngangi og öll með svölum. Þetta var frábær staður en þegar maður var búinn að kynnast standardinum á Occidental hótelinu fannst okkur þetta hótel skelfilegt. Við létum það ekki á okkur fá þar sem við ætluðum ekki að eyða svo miklum tíma inná herbergi. Við tókum restina af deginum í það að ganga meðfram sundlaugarbakkanum og skoða hvað var í gangi. Á þessu hóteli var allt “frítt”. Við vorum bara með armband og þegar við vorum svöng gengum við inn á einn veitingastaðinn inn á hótelinu og fengum okkur að borða, fórum á barinn þegar okkur hentaði og fengum okkur drykki. Afskaplega þægilegt.  

Dagur 6 

Fórum um kl 10 um morguninn og leigðum okkur vespur. Keyrðum um á Varadero og skoðuðum fjölbreytt mannlíf og fórum í Plaza America sem er eitt stærsta mollið á Kúbu. Þetta var moll með fullt af verslunum og eftir að hafa skoðað það var ég óskaplega þakklát fyrir Kringluna og Smáralindina....verðlagið var skelfilegt!!! Drifum okkur í burtu og keyrðum um. Sáum stóran markað sem við kíktum á. Það var mjög gaman.  

Dagur 7 

Skelltum okkur í svokallaða sólarsiglingu. Fórum kl 9 um morgunin á tvíbytnu (held að það sé skrifað svona) og sigldum í klst og þá var stoppað í kóralrifi og allir fengu froskalappir og skork dót og fóru út í að skorkla. Það var geggjað að skoða fiskana og dýralífið í sjónum. Reynsla sem lætur náttúru unnendur ekki ósnortna. Sigldum svo á eyjuna Cayo Blanco (hvíta eyjan) og þar fórum við og borðuðum og sátum á mjallarhvítri strönd og skoðuðum fugla og dýralíf í sandinum. Skelltum okkur í smá sundsprett. Sjórinn var vel volgur enda er þetta Karabískahafið. 

Dagur 8 

Þá var bara að pakka og halda heim á leið. Sæll og glaður eftir þessa ferð. Margt að skoða og margt að sjá og mikið verslað. Þó svo að maður hafi ekki ætlað að eyða peningum voru þeir ótrúlega fljótir að fara. Maður var að gefa tips í þetta og hitt og svo voru ferðirnar líka dýrar. Keyptum að sjálfsögðu fullt af minjagripum og svo bara fallegir gripir sem maður fékk á ótrúlegu verði.Okkur var ekið á flugvöllinn og við þá tilhugsun að fara í gegnum þessa helv#$%& flugstöð fékk maður magapínu. Vitleysan þarna var gríðarleg. Endalaust biðröð í þetta og hitt og endalaus vitleysa sem virtist ekki ætla að taka neinn enda.Við komust klakklaust í gegnum flugstöðina en þeir sem voru með Þ í nafninu sínu voru ekki eins heppnir, ég tala ekki um að vera Þorsteinsson eða dóttir....óboj...þeir eiga þennan staf ekki til í sínum tölvum sem nota bene voru keyrðar á DOS umhverfi. Þegar slíkur einstaklingur kom fór allt í vitleysu. Viðkomandi manneskja þurfti jafnvel að standa heilu mínúturnar í borðinu meðan beðið var úrlausnar á vandanum. Ég rálegg þeim sem bera séríslenskastafi í föðurnafninu eða nafninu um að láta breyta því hið snarasta áður en haldið er til Kúbu.Flugið gekk vel. Millilentum í Halifax í Kanada eins og fyrri ferðin, fengum að fara aðeins út og viðra okkur í örfáar mínútur. Þegar aftur var komið í vélina voru örfáir einstaklingar orðnir vel hífaðir, sérstaklega kall-pungur sem sat 3 sætaröðum fyrir aftan okkur. Fljótlega eftir flugtak frá Halifax skjögraði maðurinn að hólfinu fyrir ofan okkur og bardusaði eitthvaði í töskunni. Hann hafði ítrekað farið í þessa tösku sína fyrir Halifax lendinguna en ekki verið til mikilla vandræða nema að því leitinu að hann skellti alltaf hurðinn aftur svo að glumdi í vélinni. Þetta var farið að fara pínu í taugarnar á mér en ég REYNDI að láta það ekki á mig fá, ekki fyrr en hann missti næstum töskuna ofan á pabba sem sat akkúrat undir hólfinu. Ég veit ekki hvernig hann fór að því að forða sér frá bráðu rothöggi en það var einhver heppni þar á ferð. Ég pirraðist enn meira yfir þessu en sat á mér.Ég skipti um sæti við pabba og sat á endasæti við gangveginn og ákvað að leggja mig aðeins. Ég var búin að koma mér ótrúlega vel fyrir og var alveg að detta í draumaheiminn og búin að gleyma mér vel þegar mann fjandinn kemur enn eina ferðina í hólfið og töskuna og skellir hólfinu svoleiðis að ef ég hefði ekki verið í belti hefði ég henst út um gluggann á vélinni. Hjartapumpan hamaðist svo svakalega að ég hélt að ég fengi hjartaáfall. Ég þyrlaðist upp og súrraði af reiði. Þá kom flugþjónn og ræddi við manninn. Flugfreyja kom líka og ræddi við hann. Það lagaði það ekki að ég var komin í brjálað skap. Samt var ég á kæruleysislyfjum svo það má ýmislegt ganga á áður en maður missir sig. Ég greip bók og fór að lesa, nennti ekki að reyna að sofa meðan maðurinn gekk um eins og Palli sem var einn í heiminum. Enn kemur kallinn í hólfið og skellir á eftir sér......þá sprakk mælirinn gjörsamlega og ég missti mig við hann. Gargaði á hann að hann væri ekki einn í heiminum og hann gæti ekki gengið um eins og svín. Það væri fullt af fólki að reyna að leggja sig enda er nótt úti og allir þreyttir. Hann væri búinn að gera nógu mikinn skandal af sér svo hann skyldi bara gjöra svo vel að setjast á RASSGATIÐ og ekki hreyfa sig meira. Ég var orðin svo brjáluð að ég missti mig gjörsamlega. Minn maður seig í sætið og þorði ekki að yrða á mig enda þekkir hann mig þegar ég er búin að missa stjórn á skapi mínu. Enn og aftur komu bæði freyjan og þjónninn og þar sem kallinn sinnti þessu ekki kom annar flugstjórinn líka. Hjónin sem sátu við hliðina á honum báðu um að láta færa sig en það voru engin sæti laus og enginn vildi vera við hliðina á honum. Það endaði á því að stór og mikill maður bauð sig fram og þá var maðurinn skikkaður í gluggasæti og stóri maðurinn við hliðina á honum og passaði upp á að hann gæti ekki hreyft sig. Ég átti von á að lögreglan yrði kölluð til á vellinum en til þess kom ekki eftir að hann var settur í straff. Öruhvoru heyrði maður í stóra manninum segja við dólginn “þegiðu helvítið þitt” .....ég var semsagt ekki sú eina sem var pirruð út í hann!! Mikið var gott að lenta á Fróni og mæta kuldanum. Nú loksins er maður þakklátur fyrir hið ótútreiknanlega veðurfar sem Ísland hefur upp á að bjóða.....og er stollt af því.  Joyful

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

hin fagra

Helga Linnet
Helga Linnet

sú eina sanna

Slakaðu á og njóttu lífsins, þú munt aldrei lifa þennan dag aftur

Smelltu á þetta...

vinsældarlistinn

smá könnun

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

32 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband