Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010
26.2.2010 | 09:09
Nú er úti veður vont
Maðurinn minn hefur verið að keyra trailer þarna ansi oft. Í gær var engin undantekning og var hann á leið í bæinn með mikið hlass. Hann fylgdist vel með veðurspánni og honum fannst það óráðlegt að reyna frekari heimför svo hann lagði bílnum í Borgarnesi og fékk sér bara gistingu.
Þetta kallast skynsemi og væri gott ef fleiri gerðu slíkt hið sama. Er svo ótrúlegt þegar fólk er að reyna að fara svona þegar veðrið er eins og það er og jafnvel ekki á nógu vel skóuðum bílum.
Það er víst ekki nóg að fylgjast með út um gluggann
Fastir undir Hafnarfjalli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2010 | 23:26
Peningaþvottur
Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það er ekkert mál að stunda peningaþvott. Allavega ekki þegar snjóar og hríðar svona mikið eins og undanfarinn sólarhring...þá er þetta verk ótrúlega einfalt.
Hinsvegar er það ekkert skemmtilegt þegar það kemst upp....því það bitnar allt á manni sjálfum. Það er samt betra að vera vel á varðbergi og taka til sinna ráða þegar upp kemst.
Í gær byrjaði peningaþvotturinn hjá mér en hann endaði svo snögglega í morgunn þegar upp komst um athæfið og uppi varð ævintýri að þurrka slóðina svo vel væri.
Uppskriftin er samt einföld. Ég læt hana fylgja hér en ég ráðlegg svosem engum að reyna þetta...allavega ekki ef ykkur er annt um heimilið!!!
Uppskriftin:
Fylgist vel með veðurspánni og og veðuráttinni. Þegar spáð er hríð þá skaltu opna glugga sem snýr í áttina að áætlaðri hríðinni upp á gátt, setja stóran sparibauk fullan af smápeningum fyrir neðan gluggann (á sólbekkinn), draga fyrir gardínur og bíða svo nóttina.
Um morguninn skaltu fara með nokkur handklæði að glugganum (til að vera viðbúinn því versta) og þegar þú kíkir í gluggann þá á að vera búið að hríða svo mikið inn að gluggakistan er (eða ætti að vera) full af klaka og vatni og sparibaukurinn ætti að innihalda jafn mikið vatn og klink (í millilítrum talið). Hellið vel og vandlega úr bauknum og reynið að þerra eins mikið af klinkinu og þið getið án þess þó að taka það úr bauknum. Þurrkið vandlega úr gluggakistunni til að skemma ekki neitt. REYNIÐ svo að loka glugganum...kannski þarf að fara út í hríðina og brjóta klakann frá.
Endurtakið þetta eins oft og þurfa þykir.
Hér læt ég svo fylgja nokkrar myndir af rósinni sem minn heitt elskaði eiginmaður gaf okkur stelpunum á konudaginn (ein á hverja dömu)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2010 | 10:35
Það sem gefur lífinu lit
Lífið gengur sinn vanagang svona að megninu til. Ég er loksins að hressast eftir að ég fékk sterasprautur í kjálkavöðvana. Heyrnin að koma aftur smátt og smátt en bölvaður hóstinn er enn til staðar en þó ekki mjög mikill. Held svei mér þá að ég sé með ofnæmi fyrir einhverju sem ekki hefur komið fram áður!
Allavega þá fer ég reglulega í góða hreyfingu svona til að styrkja hjartavöðvana áður en ég fer í hjartaaðgerðina (sem verður fljótlega) og vikulega hef ég farið með A-klúbbnum "mínum" (sem er klúbbur áhugaljósmyndara) vítt og breitt um suðurlandið.
Í gær var það engin undantekning og fórum við austur og þá næstum að Vík! Stoppuðum á nokkrum stöðum til að fanga myndefni. Veðrið var æðislegt og hitinn var um frostmark og nánast heiðskýrt.
hér eru nokkrar af myndunum sem ég tók á þessu ferðalagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2010 | 12:53
Hinn blíði Batman
Ólöf mín er í prófum í dag svo ég tók við Batman í gær svo hann sé ekki svona lengi einn heima.
Ég og Batman erum ótrúlega góðir vinir og má hann ekki af mér sjá. Oft hef ég hugsað til þess að ef hann væri ekki hundur þá væri hann að bera í mig allskonar góðgæti og jafnvel blóm, svo mikið dýrkar hundurinn mig
Í gær vorum við bara að kúra saman í sófanum og ekkert vandamál og svo fór hann inn í búrið sitt þegar ég fór að sofa. Um morguninn fékk hann svo að fara út úr búrinu og var að sniglast í kringum mig.
Kom krökkunum í skólann og fór svo að taka mig sjálfa til í ræktina og í annir dagsins. Myndataka átti að vera í skólanum af 45 börnum í 2.bekk svo það þurfti að hafa allt á hreinu.
Þegar ég var að fara að klæða mig þá kom Batman til mín. Hann hafði "horfið" smá stund og ég hélt að hann hefði bara skottast í búrið sitt á meðan ég mátti ekkert vera að því að kela við hann.
Ég sé að hann er komin með eitthvað leikfang í kjaftinn og var svosem ekkert að kippa mér upp við það nema að þetta leikfang hafði ég aldrei séð áður. Hann leit á mig og ég ákvað að kveikja ljós til að sjá hvað hann væri með og þegar ég sá hvað hundurinn lagði fyrir framan fæturna á mér þá rak ég upp óvænt óp!
Aumingja dýrið fór að bera "gjafir" í mig og í þetta skiptið voru það engir konfektmolar eða blómvendir heldur eitt stykki M Ú S
Aumingja hundurinn skakklappaðist í burtu með skottið á milli lappa og inn í búr ansi skömmustulegur.
Ég fór að vinna í því að fjarlægja ógeðið og þegar það var búið varð ég að fara og knúsa hann. Hann vildi jú ekkert annað en gott.
Sennilega fæ ég martraðir næstu nætur og sé mús í hverju horni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2010 | 11:38
Einlægni barnanna
Sunna mín vildi endilega læra að prjóna. Ég sat með henni þó nokkra stund að kenna henni og hún var orðin ansi góð á endanum. Hún tilkynnti mér það að nú væri hún að prjóna trefil á mig
Ég samsinnti því hið snarasta til að móðga ekki barnið. Hún spurði þá hvort ég væri ekki til í að prjóna ullarsokka á hana. Jú, ég var alveg til í það svo við fórum saman að versla í ullarsokkana. Hún valdi litinn og ég samsinnti því þó svo að ég hefði kannski ekki alveg verið sammála litnum. En eigi að síður þá þarf hún að ganga í þessu, ekki ég
Sunna tekur upp prjónana öðru hvoru og ef ég fylgi ekki hverri lykkju eftir þá eiga það til að myndast göt hér og þar og ótrúlegur fjöldi lykkna enda á prjónunum. Ég tek þetta svo lítið ber á og laga samviskusamlega.
Einn góðan veðurdag var ég á ferðinni í einni garnversluninni í höfuðborginni. Þar var mér litið á rekka fullan af ullarsokkum í hinum ýmsum stærðum og litum. Þegar ég sá verðið ákvað ég að vera ekki að hafa fyrir því að prjóna sokkana á barnið svo ég verslaði eitt par af ullarsokkum á Sunnu og hrósaði sigri yfir því. Það er fátt leiðinlegra en að gera sokka!!!!
Ég afhenti barninu sokkana og hún virtist nokkuð sátt.
Um daginn vorum við mæðgur að versla í Fjarðarkaup á annatíma sem var kannski bara alveg í lagi nema þegar við vorum við kassann þá lítur barnið á mig og segir hátt og snjallt:
Mamma, HVENÆR ætlar þú að klára ullarsokkana mína? Ég er búin að bíða ótrúlega lengi eftir þeim!
Ég varð hálf hvumsa yfir þessu og reyndi eitthvað að bera á móti þessu og leit í kringum mig hálf skömmustuleg. Áður en ég náði að svara einhverju af viti þá segir Sunna enn hærra svo allir í 10 metra radíus hafa örugglega heyrt allt sem á milli okkar fór
Mamma, HVERNIG myndi þér LÍÐA ef ég sæti ALDREI og prjónaði trefilinn ÞINN bara eitthvað annað???
Rauðari en allt sem rautt var snéri ég mér við og sá að það voru í það minnsta 20 manns sem horfðu á okkur mæðgur!!
Með hneykslis svip snéri barnið sér við og strunsaði framfyrir kassann svo ég átti ENGA möguleika á að mögla við hana.
Það er óhætt að segja að dóttir mín tók mig í bakaríið þann daginn (eiga eflaust eftir að verða fleiri svona atvik á lífsleiðinni)
Annars er það að frétta að ég, unga konan er að verða amma
Viktorían mín er flutt að heiman með kærastanum og eiga þau von á lítilli prinsessu í júní.
Í fyrstu var þetta mikið sjokk að verða amma aðeins 35 ára en eftir smá ígrundun þá verð ég orðin 36 þegar prinsessan kemur í heiminn. Það var strax skömminni skárra en 35...ég trúi því allavega
Stefán minn er búinn að hlæja mikið af þessu og hefur skotið á mig "hvað segir amma gamla gott" en þegar ég skaut til baka "bara ágætt afi GAMLI" þá hætti hann að stríða mér
Annað verra. Vinkona mín hún Helena sagðist ætla að segja mér upp sem vinkonu. Hún væri svo ung að hún kærði sig ekki um að eiga vinkonu sem væri að verða amma.
Í fyrstu fannst mér þetta ekkert fyndið en svo þegar ég uppgötvaði það að hún sjálf verður AFASYSTIR þá skaut ég því á hana og þá varð "silence of the lambs"
Nú er þetta bara spennandi og ég er byrjuð að prjóna á ömmustelpuna mína. Sunna er alveg að springa úr spenningi og segist sko vera LÖNGU tilbúin til að verða móðursystir
hér er svo litla Birgisdóttir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
336 dagar til jóla
Myndaalbúm
Tenglar
áhugavert
skoða þetta
- Flickr.com myndirnar mínar á flickr
- Margrét frænka Athygliverð stelpa
- Eyrún og Jobbi verkfræðingar með meiru
- Ólöf Helga sæta músin mín