18.11.2006 | 12:43
við fyrstu kynni
ég fór að velta því fyrir mér um daginn þegar ég var spurð að því hvar ég kynntist Stefáni. Svarið var einfalt, á Kaffi Reykjavík en sagan á bakvið það er mjög flókin. Þegar ég fór að garfa í huganum hvernig allt þetta byrjaði þá datt mér mynd til hugar sem heitir Shallow Hal. Uppgötvaði mér til mikillar skemmtunar að okkar kynni og kynni Hals við Rosemary eru bara nánast eins .
Trailer úr Shallow Hal http://www.shallowhalmovie.com/shaker.html
Í myndinni Shallow Hal var Hal alltaf að leita sér að hinni fullkomnu stúlku. Hann sá bara súpermódel og fyrirsætur en aldrei sá hann neitt í þessum "venjulegu" stúlkum. Dag einn rekst hann á einhverskonar dáleiðara og hann lætur hann sjá konur sem eru fallegar að innan sem algjörar skvísur þó svo þær séu feitar og ljótar . Svo hittir hann Rosemary sem var sennilega á bilinu 130-180 kíló en hennar innri manneskja var svo falleg og tær að það fékk meira að segja Hal til að kikkna í hnjánum. Málið með Hal var að hann sá þessa konu sem algjört súpermódel en sá aldrei hvað hún var feit. Öll myndin snýst um það að reyna að heilla þessa konu upp úr skónum með öllum tiltækum ráðum. Hún var mjög treg í taumi og fannst hann vera að gera gys að sér og lét hann óspart ganga á eftir sér til að full vissa sjálfan sig um að honum væri alvara.
Þetta má heimfæra upp á mín kynni við Stefán. 22. nóvember 1996 fór ég með Sveindísi vinkonu á djammið. Ég ætlaði ekki að fást til að fara þar sem ég var ekki í stuði fyrir slíkt og var mjög bitur almennt séð út í lífið og tilveruna. Hún hætti ekki og ég gaf mig. Við fórum saman á Kaffi Reykjavík en þá var ný búið að opna staðinn. Á leiðinni í leigubílnum varð ég mjög sár út í sjálfan mig að hafa sæst á að fara út. Ég horfið út um gluggann á bílnum þögul og horfði til himins. Allt í einu sá ég stjörnuhrap og það fyrsta sem kom upp í hugann mér var að ég gæti óskað mér. Ég óskaði þess að ég myndi hitta hinn fullkomna mann sem ég gæti eytt æfinni með! Akkúrat við þessar hugsanir vaknaði ég sárreið yfir því að hafa dottið þetta til hugar þar sem ég var ný komin úr skelfilegu sambandi og var svo bitur út í karlþjóðina að mér væri sama um að það yrði klippt undan þeim öllum! . Ég strokaði út þessar hugsanir og reyndi að draga allt til baka. Við komum þarna inn vinkonurnar á Kaffi Reykjavík, lögðum frá okkur jakkana og fórum að leita okkur að sæti. Við vorum rétt komnar inn fyrir dyrnar þegar maður kom til mín og vildi dansa við mig. Það var ekki að ræða það og sagði nei. Hann vildi þá bjóða mér í glas......þá kom annað hljóð í skrokkinn þar sem við áttum ekki gataðan aur til að kaupa okkur e-ð að drekka á barnum. Við vorum með "nesti" í töskunni minni og við ætluðum okkur ekki á barinn. Ég benti þessum herra manni á það að ég gæti þegið drykkinn en hann mætti þá ekki skilja vinkonu mína útundan. Hann sagðist ætla að bjóða henni upp á drykk líka. Við flýttum okkur með drykkinn og svo ætluðum við að láta okkur hverfa....en hann fylgdi okkur eftir. Við gerðum tilraunir til að stinga hann af og fórum inn á kvenna klósettið og settumst það á borð og fórum að ræða saman og drekka "nestið". Eftir ca 30 mín. setu þarna á salerninu sagði ég við vinkonu mína að nú væri hann farinn. Strunsuðum út og viti menn.....þarna var hann....og BEIÐ!! Hann var greinilega svo ákveðinn í að missa ekki af mér að ég hef aldrei vitað annað eins. Svona gekk þetta, hann elti okkur eins og skugginn allt sem við fórum. Það eina sem maðurinn hafði var nafnið mitt. Þegar við ákváðum að fara heim vildi hann fylgja mér heim og því neitaði ég, hann vildi þá að ég kæmi með sér, hann var á hóteli rétt hjá og þá sá ég það....maðurinn laug að mér að hann væri á hóteli og hann ætti örugglega kellingu og fullt af krökkum heima . Þetta var staðfesting á því að það mætti klippa undan þeim ÖLLLLLLUM.
Heim fórum við EINAR. Fór svo að hugsa um þennan mann sem lét mig ekki í friði. Hvað var að?!?!?!. Á sunnudeginum hringi síminn. Ég svara og þá er þetta þessi kall fauskur sem var á línunni. Ég hélt að ég yrði ekki eldri þennan daginn. Hann spjallaði aðeins við mig í símann og virtist alveg á jörðinni. Hann bað leyfis um að fá að hringja aftur í mig og eftir smá umhugsun þá sagði ég já . Hann hringir svo aftur á þriðjudegi og var þá mjög léttur í lund og við spjölluðum heillengi saman. Hann vildi fá að hitta mig aftur en ég eyddi því. Á fimmtudegi hringdi hann aftur og bað um hitting með mér. Ekki vildi ég staðfesta að ég væri til í það en spjölluðum saman um heima og geima. Á föstudagskvöldinu (29. nóv) hringir hann kl 19 (klst fyrr en vanalega) og spurði hvort ég vildi hitta hann á kaffihúsi. Mamma var stödd hjá mér þegar hann hringir og ég spyr hana hvort hún nenni að hlusta eftir stelpunum í smá stund ef ég skryppi aðeins út. Jú, kellan var til í það og ég beit í tunguna á mér, hugsaði mig um og sagði við sjálfan mig að kaffihús hittingur væri alveg í lagi, ætlaði bara að losa mig við hann hratt og örugglega. Ég sagði við hann að hitta mig á kaffihúsinu í Firði í Hafnarfirði. Hann jánkaði því og tíminn var kl 20. Ég leit í spegil, sá þreytta húsmóður með reytt hárið. Hvarflaði ekki að mér að hafa mig e-ð þokkalega til, setti ekki svo mikið sem maskara á mig . Fór á kaffihúsið og þar var hann, mættur að sjálfsögðu. Hann bauð mér kaffi þegar ég settist. Ég leit á hann eitt augna blik og lét móðan mása, sagði við hann að ég væri einstæð móðir með tvö börn, annað barnið væri meira og minna inn á spítala vegna krabbameins og óljóst væri um framhaldið á því. Ég ætti ekki gataðan eyri og ég skildi ekki hvað hann vildi. Maðurinn horfði rólegur á mig og sagði svo undur hægt:"tja, ég vildi bara gjarnan fá að kynnast þér betur". Ég var sannfærð um það á þessu augnabliki að hann hefði ekki heyrt það sem ég sagði og endurtók að ég væri EINSTÆÐ TVEGGJABARNA MÓÐIR OG ÆTTI EKKI GATAÐAN EYRI. Hann leit á mig, horfði smá stund og sagði svo: "það er allt í lagi mín vegna. Það er ekki það sem ég leita eftir, ég vil fá að kynnast þér". Við þessi orð róaðist ég heilan helling en var samt efins. Við spjölluðum saman smá stund og svo bauð hann mér í bíltúr. Ég var farin að kunna ágætlega við hann á þeim tímapunkti og sérstaklega þar sem hann var svo poll rólegur og yfirvegaður. Við fórum á rúntinn og ég sat í bíl með "prinsinum á hvíta hestinum". Hann átti nefnilega Galant sem var hvítur. Hann skilaði mér aftur ca klst síðar og ég fór heim. Hann hringdi svo kvöldið eftir og spurði hvort hann mætti bjóða mér í bíó. Jú, ég var til í það svo á laugardagskvöldinu fórum við í bíó á myndina Up close and personal með Robert Redford og Michelle Pfeifer. Fórum aðeins á rúntinn og svo skilaði hann mér heim.
Svona gekk þetta helgi eftir helgi. Við hittumst og áttum góðar stundir saman. Það var ekki fyrr en nær dró jólum að hann fékk að koma inn. Ég vildi samt ekki kynna hann fyrir krökkunum strax, ekki fyrr en ég var viss um að þetta var það sem ég vildi. Ég sagði engum frá okkar sambandi þar sem ég var svo nýlega skriðin úr öðru sem var skelfilegt samband. Ég fékk hinsvegar sendingu frá honum um jólin. Ég opnaði það ásamt öðrum jólapökkum og gaf hann mér klukku úr íslenskum steini frá Álfasteini. Þessi klukka var mér mjög kær. Ekkert of persónulegt en e-ð sem ég get haft og munað eftir hvernig ég fékk hana og hvaðan.
Ég uppgötvaði það mörgum árum seinna að hann keyrði í bæinn frá Akureyri í von eða óvon um hvort ég myndi vilja hitta hann aftur . Hann var heldur ekkert að grínast með það að hann hefði verið á hóteli í bænum. Hann var að vinna þessa helgi og ákvað að skella sér aðeins út á lífið. Hann keyrði rútur á þessum tíma og var að koma frá Akureyri og hann hafði oft gist á þessu hóteli. Hann sagð mér það ekkert þegar ég hitti hann að hann væri að norðan.
Svona gekk þetta í dágóðan tíma. Ég varð alltaf ástfangnari og ástfangnari með hverjum deginum sem leið. Núna eru næstum 10 ár síðan við Stefán kynntumst. Ég er rosalega hamingjusöm í dag. Við eigum lítinn gullmola ásamt því að hafa komið ótrúlega vel undir okkur fótunum. Stefán minn hefur ætíð staðið eins og klettur á bakvið mig og stutt mig í einu og öllu. Án hans hefði ég ekki klárað iðnskólann á sínum tíma og án hans hefði ég ekki geta verið í Háskólanum í Reykjavík.
Ég spurði hann fyrir nokkru hvernig í ósköpunum stóð á því að hann var svona "erfiður" við mig þegar ég kom á KR. Svarið var einfalt. hann sagði að þegar ég kom inn, leit hann á mig og sá það bara strax að þetta var konan sem hann var að leita að og hann var ákveðinn í að láta mig ekki sleppa! Mér fannst þetta jafn "solid" svar og hann er sjálfur og sættist á þetta.
Þetta er í raun staðfesting á því að sama hversu erfitt lífið getur orðið, þá er alltaf einhver ljós punktur í tilverunni. Maður þarf að setja upp "Pollyönnu" geðið öðru hvoru og takast á við lífið og tilveruna.
Njótið þess að vera til og knúsið hvert annað.
kveðja
Helga dramadós
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
336 dagar til jóla
Myndaalbúm
Tenglar
áhugavert
skoða þetta
- Flickr.com myndirnar mínar á flickr
- Margrét frænka Athygliverð stelpa
- Eyrún og Jobbi verkfræðingar með meiru
- Ólöf Helga sæta músin mín
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.