4.6.2008 | 20:35
allt er breytingum háð.
Ég fór með litla stýrið mitt til barnaskurðlæknis í dag. Ég vissi ekki hverju ég átti von en ekki þeirri niðurstöðu sem þessi ágæti læknir kom með.
Hún er með svokallaða Branchiogen sinus sem myndi þýðast sem "þistilgöng". Þetta er svosem ekki banvænt (held ég) en allavega nógu slæmt að þetta kostar innlögn á spítala í 2-3 dag og skurðaðgerð.
Á netinu fann ég að þetta væri nokkurskonar æxli sem þyrfti í öllu falli að skera í burtu, ef það er ekki gert, getur æxlið umbreyst í illkynja. Fann síðu sem er á þýsku sem lýsir þessu vel og hvað er gert og hvers vegna þetta kemur en þar sem ég er ekki það sleip í þýskunni ætla ég ekki að reyna að þýða meira!
Ekki ætla ég að kvarta yfir einhverri spítalavist því ég hef búið á spítala með mið-stelpuna í heilt ár samfleytt og kvartaði aldrei yfir því. Þetta einstaka starfsfólk spítalanna gerðu okkur dagana bærilega í þá daga. Margir eyða meiripartinum af sínu lífi á spítala svo maður á ekki að geta kvartað. Með hraustasta barn ever.
Á morgun fáum við að vita hvenær innlögnin verður en hann vildi flýta því sem allra mest (og ekki veit ég afhverju en það er oft þannig að okkur "venjulega" fólkinu er kannski ekki sagður allur sannleikurinn. Ég vona að það sé ekki í þessu tilfelli) Við munum taka þessu með jafnaðar geði eins og svo mörgu öðru.
Á heimleiðinni í dag missti ég úr slag! Var stopp á rauðu ljósi í talsverðri umferð og lít í spegilinn en þá sé ég skelfingarsvipinn á ökumanninum þegar hann áttaði sig á því að hann var að klessa á. Með naumindum stoppaði bíllinn hans, örfáum sentímetrum fyrir aftan minn!! sjæsinn hvað mér leið illa lengi á eftir. Langar síst af öllu að lenda aftur í aftanákeyrslu. Það er eitt af því versta sem hefur hent mig á minni lífsleið....so far!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.6.2008 | 10:46
minningar
Það er ótrúlegt hvað minningar geta hellst yfir mann þegar maður á síst von á því. Sterarnir sem ég er á gera það að verkum að ég á mjög erfitt með að sofna á kvöldin ef ég tek þá of seint. Gærkvöldið var einkennandi fyrir það!
Ég hafði meira að segja gleymt iPod-inum mínum í vinnunni svo ég gat ekki sofnað út frá sögu svo ég laumaði mér í iPodinn hans Stefáns. Ég hafði hent inn nokkrum lögum á hann sem ég gat sofnað við.
Eitt lagið sem ég hlustaði á fyllti mig af minningum. Minningum um vinkonu sem ég hef vanrækt að heimsækja svo lengi. Þessi ágæta vinkona mín kynnti mig fyrir þessu lagi og hef ég haldið mikið upp á það síðan. Afskaplega fallegt lag.
Dóttir þessarar vinkonu minnar átti svo afmæli í gær og var okkur boðið í afmælispartý á sunnudeginum. Ég guggnaði á að mæta. Þekki lítið sem ekkert af fólkinu svo ég lofaði að kíkja síðar á þær mæðgur.
Netið er þess valdandi að maður hittir orðið æ sjaldnar fólk, sérstaklega ef viðkomandi einstaklingar eru með blogg síður eða heimasíður fyrir börnin sín, þá einhvernvegin "nægir" að kíkja á síðurnar og lesa og skoða myndir. Stundum vildi ég óska að síma auglýsingin hefði rétt fyrir sér og netið væri bara bóla!
Alltaf skal maður reyna að lofa öllu fögru með tíðari heimsóknir, símaspjall eða meiri tíma en í hraða nútímans virðist maður aldrei geta efnt þessi loforð.
Ég þrái ekkert heitar en að geta gefið börnunum mínum meiri tíma, heimsótt ættingja oftar, hitt vinina meira en í afmælisboðum, átt nokkuð fleiri stundir með ömmu og afa áður en þau verða öll. Kannski er þetta spurning um skipulagningu en mitt mat er það að þegar maður vinnur frá 8-4, þá er afskaplega lítill tími til eins né neins því ekki líður á löngu þar til maður þarf að huga að matnum og svo að koma yngri krökkunum í rúmið. Eins þarf maður að sinna hinum helmingnum. Helgarnar væru kannski góðar í að heimsækja vini og ættingja en þá er bara svo freistandi að vera heima í rólegheitum með krökkunum. Sunnu þykir ekkert leiðinlegra en að fara eitthvað í bílnum, vill helst vera heima að leika sér við sína vini. Sandra Dís er sama sinnis en Viktoría er eins og fuglinn, flýgur þangað sem hugurinn reikar.
Í haust fer litla daman mín í skóla. Ég hef tekið þá ákvörðun að ég ætla að minnka við mig vinnuna sem því nemi til að þurfa ekki að setja hana í "geymslu" þar sem allt of mikið af krökkum er og undirmannað í of litlu húsnæði. Ég hef möguleika á þessu og ætla að gera þetta. Ég skil líka alveg foreldra sem ekki hafa tök á því að minnka við sig vinnu. Ég kem þá líka til móts við Dísina mína sem þarf líka á mér að halda.
Ég verð því að sætta mig við minningar um ættingja og vini.....í bili.
Þetta lag er minningin mín um kæra vinkonu AE. Ef þú lest þetta þá vil ég bara segja þér að mér þykir rosalega vænt um þig og ég ÆTLA að kíkja mjög fljótlega á ykkur mæðgur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.5.2008 | 18:23
Myndir
Mér finnst rosalega gaman að taka myndir. Verst hvað maður fær alltaf lítinn tíma til þess að sinna áhugamálinu. Það er alltaf eitthvað sem kallar, ef það er ekki vinnan, þá eru það heimilisskyldurnar.
Ég náði samt nokkrum myndum í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.5.2008 | 18:25
Baráttan við sýkilinn
Barnið er komið á pensillín, sennilega skammtur númer 3 á hennar ævi....sem ætti að vera nokkuð gott. Ákvað að taka myndir af þessu. Ekki fyrir viðkvæma því þetta lítur ekkert sérlega vel út.
Hún fer svo í aðgerð á miðvikudaginn og þá á sýkingin að vera orðin nokkuð góð og óhætt að skera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.5.2008 | 21:12
útúr dópaðir læknar!
Skottan mín fékk allt í einu einskonar bólu á hálsinn sem ég vissi ekki hvað var. Ákvað að vera ekkert að stressa mig á því neitt. Er með langa reynslu í því að bíða átekta þegar maður þarf að fara til læknis.
Þegar bólan var orðin að hálfgerðu skrímsli, ákvað ég loksins að tímabært væri að panta tíma hjá húðsjúkdómalækni og fá hann til að taka þetta í burtu.
Panta tíma hjá konu sem ég hef verið hjá áður með góða reynslu og fékk tíma fljótlega. Bað Stefán um að fara með hana því þetta átti ekki að vera neitt vandamál. Smá "brennsla" og málið dautt.
Hann fer með hana og hringir í mig rúmlega klukkustund eftir að þau áttu að vera farin inn og spyr mig hvort ég hafi ekki farið dagavillt....eða tímavillt. Ég athuga það og komst að því að hann var bæði á réttum tíma og degi.
90 mínútum eftir að tíminn þeirra hefði átt að byrja, kemur kellingin fram og kallar á þau inn. Að Stefáns sögn virtist konan algjörlega í öðrum heimi og virtist útúr dópuð og vissi ekki einu sinni hvaða dagur var og hvað þá tími.
Hann sýnir henni bóluna og hún yppti bara upp öxlum og sagði að þetta væri ekki neitt. Klappaði þeim á öxlina og sagði þeim að fara út. Gat ekki stimplað inn kennitöluna hennar rétt inn, vissi ekki hvað þessi tími kostaði, fann út úr því og fékk kortið hjá Stefáni, horfði á það eins og það væri matadór peningur og rétti honum aftur án þess að renna kortinu í gegnum slíðrið. Minn maður fékk nóg, stóð upp og strunsaði út. Sagðist aldrei ætla að koma aftur, hvorki með þetta barn né neinn annan úr fjölskyldunni.
Nú voru góð ráð dýr. Ekki þekkti ég til frekari húðsjúkdóma lækna svo ég ákvað að spyrjast fyrir en þeir sem var eitthvað vit í, voru með biðlista lengri en í afvötnun á Vogi!
Eitthvað fer barnið að kvarta undan bólunni nokkrum dögum síðar og í dag þegar ég kem heim úr vinnu, enn hálf skelkuð eftir skjálftann, sé ég að hún hafði fengið plástur á bóluna og plásturinn var mettaður af blóði. Ég kíki á þetta og sé þar sem þessi litla "sæta" bóla var orðin að skrímsli, um það bil 5-7mm í þvermál og gat í miðjunni sem vætlaði úr. Barnið sár grét af verkjum og komin með útbrot undan plástrinum.
Ég stekk upp úr sófanum og gríp barnið með mér og beint í bílinn og þangað lá leið á vaktina í Kópavogi. Þegar ég er komin þangað tók ekki betra við. Síminn minn var nánast batteríslaus og ég hljóp út með barnið í fanginu VESKISLAUS!
Afsakaði mig bak og fyrir í afgreiðslunni en þar var mér bent á það að það væri frítt fyrir börnin. Ég andaði léttar....en ekki lengi.
Biðum á biðstofunni í 25 mínútur og var orðin ansi stressuð á klukkunni því ég átti að vera mætt í skólann klukkan 6.
Læknirinn lítur á stelpuna og svarið var einfalt:
Mikil sýking og þarf í skurðaðgerð strax!
Hann sendi lyfseðil beint í apótekið í Fjarðarkaup en ég var peningalaus og klukkuna vantaði korter í sex svo það var vonlaust að við næðum í tíma. Ég ákvað að drífa mig í skólann og hafa barnið með mér og biðja Stefán um að grípa hana í Skeifunni. Hann var þá á leið í útkall og gat ekki tekið hana strax. Ég varð þá að hafa hana bara með mér til að byrja með.
Í því dó síminn minn og ég varð sambandslaus við umheiminn. Vonaðist þó til að Stefán myndi finna okkur. Ákvað að fara á netið og senda honum sms í gegnum símann og lóðsaði honum til okkar.
Klukkan var að verða átta þegar hann lét sjá sig. Sagðist hann aldrei ætla að finna okkur og ég hváði því ég hafði jú sent honum sms með útskýringu á staðnum. Hann kíkir á símann og þar kom það skýrt fram að hann hafði aldrei fengið sms-ið!!!!
Það er allt eins!
Leit á barnið þegar ég kvaddi þau og sá að hún var komin með hita...aftur...fékk hita í gær og var slöpp en var hitalaus í morgun. Ég held að þessi hiti stafi af sýkingunni, hún er jú á hálsinum og orðin ansi mikil.
Nú þarf ég að fara með hana í aðgerð til að fjarlægja skrímslið og vona ég svo sannarlega að það verði ekki eftirmálar af því.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.5.2008 | 13:00
Sterastubbur bakari og grísirnir þrír...eða fjórir...!!
Eitthvað virðast sterarnir frá lækninum mínum fara öfugt í mig. Ég nötra í töluverðan tíma eftir inntöku astmalyfsins og sennilega bætir ekki stera nefspreyið heldur.
Þetta er ansi leiðinleg sýking þessi kinnholusýking, virðist ekki vera neitt sem slær á þetta. Maður er með tilheyrandi "tannpínu" og verki í kinnunum sem leiða í augun líka. Það er heil lyfjaflóra sem ég þarf að innbyrða á hverjum degi. Ekki kvarta ég ef þetta gerir gagn! Væri alveg til í að sjá fyrir endann á þessu ógeði. Búin að vera svona í tvo mánuði!!
Síðasti dagurinn í skólanum í kvöld. Jibbí...loksins að verða búið. Kláraði lokaverkefnið síðasta þriðjudag svo nú er bara að fara yfir það og leggja loka spurningar fyrir kennarann. Loksins ætti ég að geta farið að gera það sem mér finnst skemmtilegast að gera......TAKA MYNDIR
Dramað heldur áfram á mínu heimili. Nú eru komnir 4 naggrísir (í tveimur búrum) og átti að venja nýjasta meðliminn með einum úr fyrra búrinu. Þeir eiga að vera tveir og tveir saman í búri og annað búrið á að fara á annað heimili.
Þegar ég sagði við dætur mínar að nú þyrfti einn að fara yfir í hitt búrið og það ætti að fara frá okkur til vinkonu minnar varð uppi grátur. Sunna vildi ekki láta Snoopy fara, vildi að Heikir færi....Dísin mín vildi ekki að Heikir færi, vildi að Snoopy færi. Þær rifust um þetta og var ég ráðþrota hvað ætti til bragðs að taka.
Ég var búin að ákveða að Snoopy færi með þessum nýjasta (sem heitir Spike) svo ég tók af skarið og reyndi að venja þá saman í búrið. Ekki gekk það betur en svo að Spike réðst á Snoppy svo hann nötraði allur og skalf og meig undir! Eftir dágóða stund gafst ég upp, fannst þetta ekki vera rétt af mér að gera og tók Snoopy úr búrinu.
Greip Heiki (sem er jafn stór og Spike) og setti hann ofan í búrið. Þeir vildu nú ekkert talast mikið við, reyndu báðir að sýna vald en á endanum urðu þeir sáttir og átu úr sömu dollunni og deildu húsi saman.
Mér sýnist endirinn verða að Spike og Heikir fari saman í fóstur til nýrra eigenda. Dísin mín ekki sátt við það en sættist á þetta með semingi þegar hún sá að Spike og Heikir gátu verið saman í búrinu.
Ég lofaði henni að hún mætti eiga Snoopy og Sunna héldi Mikka sínum. Ég held að það komist ró bæði á litla grísi og svo stóra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.5.2008 | 10:50
Leoncie.....enginn þríkantur hér!
Þetta er GARGANDI snilld!!! Konan er náttúrulega bara "snillingur"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.5.2008 | 20:46
Ekki bara EIN dramatísk drottning...heldur TVÆR!!!
Það snýst allt um nýju fjölskyldu meðlimina þessa dagana. Eðlilega myndi ég segja. Dísin mín er dálítið til baka með umhirðu og umgengni en er allt að koma. Mjög dugleg að passa upp á vatnið hjá þeim...ennþá og gefa þeim kál og grænmeti.
Sunna litla heldur að þetta séu tístu-dúkkur því hún hefur komist að því að ef hún kreistir þá dálítið um þá miðja, þá tísta þeir...frekar hátt! Hér gætir einhvers misskilnings því þetta eru víst ekki tístu-dúkkur!!
Ég ákvað að skella enn meiri ábyrgð á stelpurnar og sagði þeim að fara út og viðra grísina þrjá. (já, ég gleymdi því...það er víst kominn sá þriðji...reyndar bara tímabundið...VONANDI.) Ég sagði við þær að þær mættu undir ENGUM kringumstæðum líta af þeim. Fylgja þeim hvert sem þeir færu og grípa þá ef þeir sýndu merki um strokufanga.
Ég fer út til að aðgæta málin og gæta þess að þeir séu ekki notaðir sem tístu-dúkkur....eða dúkkur almennt séð því Sunna fór út með kerruna sína og pakkaði einu dýrinu inn og notaði sem dúkku.
Næst þegar ég lít út um svaladyrnar sé ég að það vantaði Mikka, þennan hvíta og brúna. Ég spyr stelpurnar hvar hann væri og þá svaraði Sunna að hann væri undir kerrunni hans pabba. Mér fannst Sunna vera dálítið utan við sig þegar hún sagði þetta og ákvað að ganga frekar á eftir því og aðgæta að dýrinu sjálf.
Hvergi sá ég Mikka og litaðist ég í kringum mig og sá þá hvar Sunna lá í grasinu og var EKKERT að spá í þessu. Ég bendi henni á að ég sæi hvergi Mikka svo hún yrði að finna hann. Það kom þessi líka skelfingarsvipur á barnið og á augabragði fylltust augun af tárum og ef gleraugun hefðu ekki verið á nefinu á henni hefði hún geta vökvað okkar 700m² grasflöt á nokkrum sekúndum. Hugsaði ég með mér á þeirri sekúndu að ég ætti ekki bara eina dramatíska drottningu....heldur eru þær TVÆR!! Hvers á ég að gjalda?
Hún hljóp eins og hauslaus hæna fram og til baka og kallaði á Mikka án árangurs. Tauga titringurinn og dramað var það mikið að ekki náðist samband við Sunnu á einn né annan hátt svo ég ákvað að fara og hjálpa þeim að leita af honum.
Ég veit að þetta eru "holu dýr" svo ég ákvað að leita undir öllu sem gæti hugsanlega verið holrúm inn í og fann ég hann undir slátturvélinni. Ekki tók betra við að ná honum því það var ekki í boði. Eins og sápustykki rann hann alltaf úr höndunum okkar en eftir hetjulega baráttu höfðum við betur. Aumingja dýrið var svo skelkað að hárin gjörsamlega hrundu af honum.
Ekki sýndu hinir gaurarnir þeir Heikir (Lind af ætt Ísfólksins) og Snoopy neitt fararsnið þrátt fyrir að gleymst hafi að fylgjast með þeim svo ég fór inn og sótti "flóttamannaólina" (naggrísaól) og setti Mikka í það og bað stelpurnar um að sleppa ekki taumnum undir nokkrum kringumstæðum.
Skömmu síðar voru þeir settir í búrið sitt, sáttir við að hafa fengið að bíta gras.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
140 dagar til jóla
Myndaalbúm
Tenglar
áhugavert
skoða þetta
- Flickr.com myndirnar mínar á flickr
- Margrét frænka Athygliverð stelpa
- Eyrún og Jobbi verkfræðingar með meiru
- Ólöf Helga sæta músin mín