19.1.2008 | 11:10
Fiskur á þurru landi
Það er búið að koma í veg fyrir lekann....sem betur fer. Það hafði verið eitthvað slappt kíttið í búrinu efst svo það lak þar meðfram. Ég náði að þerra skenkinn að mestu en enn vantar uppá að skúffurnar passi almennilega í ennþá, þær bólgnuðu vel út sumar hverjar. Það gæti átt eftir að ganga til baka. Búrið sæmir sér bara vel í stofunni. Ekki of stórt, bara passlegt. Tók eina mynd til að sýna DA
Sjaldan er ein báran stök samt sem áður. Ég ætlaði aldeilis að fara að vinna í myndum fyrir DA en það vildi ekki betur til en að fartölvan mín hrundi . Veit ekki hvað það getur kostað að láta laga hana en þangað til verður maður eins og fiskur á þurru landi....algjörlega handalaus.
Það hlýtur að fara að hægja á þessum ósköpum. Spurning um smá "Secret" á þetta!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.1.2008 | 13:38
Allt á floti!
Það gengur ýmislegt á hjá stórfjölskyldunni!!!
Fór beint eftir vinnu að sækja litla dýrið og kerruna til að geta sótt skenkinn fína. Sunna var ekki á því að fara með, vildi vera heima að leika í snjónum (skiljanlega) en ég sagði við hana að ég yrði að koma við í dýrabúðinni og kaupa sand í nýja fiskabúrið. Hún samþykkti að koma með, með þeim skilyrðum að hún fengi að velja einn fisk! Ég neyddist til að samþykkja það svo með það lögðum við af stað á jeppanum með kerruna aftan á.
Í Dýraríkið skunduðum við og hittum það á frábæran strák sem afgreiddi okkur um allt sem við þurftum og fengum ráðleggingar um eitt og annað. Tíminn flaug hratt svo ég varð að flýta mér því ég ætlaði að hitta Stefán fyrir utan vörulager Tekk Companys í Holtagörðum til að sækja skenkinn.
Var á mínútunni sex fyrir utan vörulagerinn og skelltum þessu á kerruna sem by the way Stefán þurfti að byrja á því að moka því ég hafði ekki "rænu" á að tæma hana sjálf af snjónum áður en við lögðum af stað
Þegar heim var komið, var ekkert um annað að velja en að bretta upp ermar og bera skenkinn inn með Stefáni. Greip undir kassann en eitthvað beitti ég mér vitlaust svo ég fékk hrikalega sinaskeiðabólgu í höndina (eða tognaði illa í úlnliðnum) svo ég var gráti næst af sársauka en beit á jaxlinn og gafst ekki upp.
Þegar búið var að forfæra sjónvarpið og allar hinar græjurnar yfir á nýja skenkinn og færa þann "gamla" sem átti að bera alla 165 lítrana (fyrir utan búr og sand sem gæti vegið um 30 kíló), fór ég að vinna í því að þrífa nýju steinana til að gera stóra búrið klárt. Eftir nokkra klukkutíma bras, var komið að því að setja vatnið í búrið og undirbúa fiskana fyrir ný og stærri heimkynni. Allt gekk að óskum svo nýju fiskarnir tveir (Sandra Dís fékk að velja einn og Sunna einn) máttu fara í heimsókn til hinna.
Fljótlega sá ég að stærsti fiskurinn okkar hann Gulli, byrjaði að vera vondur við þessa nýju og þá sérstaklega Fíónu (Sunnu fisk) en Silfri (SD fiskur) lét sig hverfa á bakvið dæluna og lét ekki á sér kræla frekar. Gulli gerði ekki annað en að reyna að bíta í sporðinn á honum, synda utan í hann og lagði hann í bókstaflegri merkingu í EINELTI Ákvað að láta þá eiga sig, lítið annað hægt að gera svo ég gaf þeim bara aðeins að borða.
Hentist svo yfir til mömmu með hitt búrið til að aðstoða hana við uppsetninguna á því og koma því búri í gang.
Þegar ég kem heim, rétt um miðnætur bil, skoðaði ég aftur fiskana vel og vandlega til að ganga úr skugga um að þeir hafi ekki fengið of mikið sjokk við þessi nýju heimkynni. Slekk á búrinu og fer að sofa.
Í morgun þegar ég vakna, ákvað ég að leyfa Sunnu að skoða nýju fiskana og búrið (hún var farin að sofa áður en ég náði að klára í gær) og ætlaði að kveikja ljósið í búrinu. Þegar ég kem nær finn ég hvar skvampaði í inniskónum! Ég kveiki frekar ljós og sé þá mér til mikillar skelfingar að fiskabúrið hafði LEKIÐ og allt á FLOTI!!!!!!!!! Það fyrsta sem ég hugsaði var "fjandans fiskarnir" en skenkurinn minn er líklega ÓNÝTUR Reif allar skúffurnar út til að þurrka það sem ég gæti þurrkað en gólfið var það blautt að bara það skemmir fæturna á skenknum. Ég sá allt í einu fyrir mér að 170.000 kr skenkurinn öðlaðist vængi á haugana
Það hvarflaði ALDREI að mér að þetta búr myndi leka svona svakalega. Ég leitaði eftir skýringu og þreifaði á öllu búrinu til að leita eftir hvar það lekur en fann það hvergi. Tappaði 10 lítrum af því til að byrja með, reyndi að þerra allt sem ég gat og krossaði fingur og fór í vinnu. Nú kemur það í ljós þegar ég kem heim á eftir hvernig útkoman er. Sé það alveg fyrir mér að þurfa að tappa af öllu búrinu aftur til að reyna að þurrka stofuna....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.1.2008 | 15:23
Dýrar framkvæmdir heimilisins
Ég er að tala við DA vinkonu á MSN þegar hún segir mér að nú sé hún komin með 400L fiskabúr. Það fannst mér vel af sér vikið og einhvernvegin þá tókst þessari yndislegu vinkonu minni á að sannfæra mig á því að mig "sárvantaði" annað fiskabúr....hún vildi endilega að ég tæki hennar búr sem er 165L. Ég held að hún sé gædd einhverju sannfæringartöfrum því ég var búin að segja já áður en ég náði að hugsa um hæð og þyngd (allavega vill maður ekki hugsa um þyngdina og er alltaf jafn svekktur yfir hæðinni svo það var skiljanlegt).
Það lá svo mikið á að nokkrum klukkustundum síðar var fiskabúrið komið heim og fyrir mér blasti ekki fiskabúr, heldur ferlíki!! Ég átti ekki neina hirslu undir búrið svo nú voru góð ráð dýr....í orðsins fyllstu merkingu. Þetta kallaði á meiriháttar skipulagningu í stofunni og ekki bara það, heldur endaði ég inn í Tekk Company og verslaði mér þar annan sjónvarpsskenk sem er í stíl við borðstofuborðið til þess að taka skúffuskenkinn og setja hann undir fiskabúrið. Með þessu fylgdi að sjálfsögðu að ég varð að taka eitthvað út úr stofunni í staðinn svo fyrir valinu var gamli bókaskápurinn sem er ekkert annað en antík og hefur tilfinningalegt gildi.
Þegar ég skoðaði mig um í Tekk Company, þá sá ég það að ég hefði NAUÐSYNLEGA þurft að skipta út sófaborðinu og fá annað sem er í stíl við nýja skápinn og borðstofuborðið og þá losa mig við síðasta húsgagnið í stofunni sem var úr kirsuberjavið. Ég hlýt að geta farið fram á skaðabætur!! Ég trúi ekki öðru en að DA sé einfaldlega bótaskyld í þessu máli
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.1.2008 | 14:55
Strákar mínir...passa sig betur næst ;)

![]() |
Ræningjar staðnir að verki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.1.2008 | 14:44
Spakmæli dagsins í dag....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2008 | 14:41
sannleikurinn er sagna bestur!

![]() |
Ástþór kærir Þórunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.1.2008 | 00:18
HK-Trimm 2008
Fór í vinnu í morgun eins og löghlýðinn einstaklingur. Ætlaði að semja við "partnerinn" minn um að fá að fara ca 30 mín fyrr því ég ætlaði að taka þátt í móti hjá HK í Digranesi. Talaði við Magga og auðvitað sagði hann að þetta var ekkert mál, svo mikið krútt þessi drengur
Það passaði nett svona að um hádegi fylltist búðin af fólki og var gjörsamlega brjálað að gera. Maður náði ekki svo mikið sem að fá sér kaffibolla eða neitt. Ég var með viðskiptavini sem sýndu ekkert fararsnið kl 14 svo ég sýndi þeim 100% kurteisi og lét ekki á neinu bera að ég færi að huga að brottför. Þau fóru rúmlega korteri síðar og þá var nú farið að róast aðeins sem betur fer, þetta var skuggalegt um tíma.
Skellti mér svo á mótið og tók þátt í því með mínu liði að hala inn verðlaunapening Fengum semsagt bronsið í mínu liði. Mér finnst það bara ásættanlegt.....ekki það að gullið hefði verið betra.....en látum þetta gott heita í bili.
Því til sönnunar læt ég þessa mynd fylgja
Nú er bara "A" liðið eftir og eins gott að þær komi ekki tómhentar heim annað kvöld
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.1.2008 | 23:57
Finding Nemo
Eitthvað virtist dælan í fiskabúrinu vera farið að gefa sig svo vatnið varð gruggugra með hverjum deginum sem leið. Loks blöskraði mér þetta framtaksleysi í sjálfri mér svo ég ákvað að taka fiskabúrið í gegn. Náði mér í fötu og vatnssugu (sem er með stórum hólk framan á og virkar sem ryksuga á sandinn og mjó slanga sem fer úr hólknum og ég beintengi við salernið) Hefst handa við að dæla vatninu af búrinu með ryksugunni. Öðru hvoru helli ég einni skúringafötu af köldu vatni ofan í búrið til fiskanna svo ég fái pínu hreyfingu á sandinn á botninum.
Fiskarnir eru frekar stórir eða frá 8cm-ca 15 cm langir. Eftir langa mæðu náði ég dælunni og fór að vinna í því að hreinsa hana og finna skýringuna á því hvers vegna hún stoppaði, á meðan sá ryksugan um að tæma búrið af vatninu.
Skyndilega fannst mér hljóðið í vatnsslöngunni vera eitthvað skrýtið svo ég fór að aðgæta það og sá mér það til skelfingar að einn gullfiskurinn okkar, hann Herra Varir, hafði gert tilraun til að heimsækja klósettið upp á eigin spýtur og notað til þess aðferðir sem voru brúkaðar í teiknimyndinni um Leitin að Nemo, eða stungið forvitnu nefinu upp í ryksuguna svo hann sogaðist upp um rörið og sat fastur innst inn í því við sigtið og gat sig hvergi hreyft.
Í panikki vissi ég ekki til hvaða bragðs skyldi taka svo ég tók á það ráð að rífa suguna upp úr búrinu svo vatnið tæmdist þar en eftir sat fjandans fiskurinn og gat sig hvergi fært!
Með því að hrista suguna vel og vandlega losnaði fiskurinn og fór aftur til vina sinna í búrinu. Eftir þetta setti ég blátt bann á að fiskarnir fengju að horfa meira á Nemó....meiru ósiðirnir í þessum óþekka trúðfisk
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.10.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
82 dagar til jóla
Myndaalbúm
Tenglar
áhugavert
skoða þetta
- Flickr.com myndirnar mínar á flickr
- Margrét frænka Athygliverð stelpa
- Eyrún og Jobbi verkfræðingar með meiru
- Ólöf Helga sæta músin mín