. - Hausmynd

.

Einlægni barnanna

Sunna mín vildi endilega læra að prjóna. Ég sat með henni þó nokkra stund að kenna henni og hún var orðin ansi góð á endanum. Hún tilkynnti mér það að nú væri hún að prjóna trefil á mig W00t

Ég samsinnti því hið snarasta til að móðga ekki barnið. Hún spurði þá hvort ég væri ekki til í að prjóna ullarsokka á hana. Jú, ég var alveg til í það svo við fórum saman að versla í ullarsokkana. Hún valdi litinn og ég samsinnti því þó svo að ég hefði kannski ekki alveg verið sammála litnum. En eigi að síður þá þarf hún að ganga í þessu, ekki ég Sideways

Sunna tekur upp prjónana öðru hvoru og ef ég fylgi ekki hverri lykkju eftir þá eiga það til að myndast göt hér og þar og ótrúlegur fjöldi lykkna enda á prjónunum. Ég tek þetta svo lítið ber á og laga samviskusamlega.

Einn góðan veðurdag var ég á ferðinni í einni garnversluninni í höfuðborginni. Þar var mér litið á rekka fullan af ullarsokkum í hinum ýmsum stærðum og litum. Þegar ég sá verðið ákvað ég að vera ekki að hafa fyrir því að prjóna sokkana á barnið svo ég verslaði eitt par af ullarsokkum á Sunnu og hrósaði sigri yfir því. Það er fátt leiðinlegra en að gera sokka!!!!

Ég afhenti barninu sokkana og hún virtist nokkuð sátt.

Um daginn vorum við mæðgur að versla í Fjarðarkaup á annatíma sem var kannski bara alveg í lagi nema þegar við vorum við kassann þá lítur barnið á mig og segir hátt og snjallt:

Mamma, HVENÆR ætlar þú að klára ullarsokkana mína? Ég er búin að bíða ótrúlega lengi eftir þeim!

Ég varð hálf hvumsa yfir þessu og reyndi eitthvað að bera á móti þessu og leit í kringum mig hálf skömmustuleg. Áður en ég náði að svara einhverju af viti þá segir Sunna enn hærra svo allir í 10 metra radíus hafa örugglega heyrt allt sem á milli okkar fór

Mamma, HVERNIG myndi þér LÍÐA ef ég sæti ALDREI og prjónaði trefilinn ÞINN bara eitthvað annað???

Rauðari en allt sem rautt var snéri ég mér við og sá að það voru í það minnsta 20 manns sem horfðu á okkur mæðgur!! Gasp

Með hneykslis svip snéri barnið sér við og strunsaði framfyrir kassann svo ég átti ENGA möguleika á að mögla við hana. Pinch

Það er óhætt að segja að dóttir mín tók mig í bakaríið þann daginn Kissing (eiga eflaust eftir að verða fleiri svona atvik á lífsleiðinni)

Annars er það að frétta að ég, unga konan er að verða amma Shocking

Viktorían mín er flutt að heiman með kærastanum og eiga þau von á lítilli prinsessu í júní.

Í fyrstu var þetta mikið sjokk að verða amma aðeins 35 ára en eftir smá ígrundun þá verð ég orðin 36 þegar prinsessan kemur í heiminn. Það var strax skömminni skárra en 35...ég trúi því allavega Whistling

Stefán minn er búinn að hlæja mikið af þessu og hefur skotið á mig "hvað segir amma gamla gott" en þegar ég skaut til baka "bara ágætt afi GAMLI" þá hætti hann að stríða mér LoL

Annað verra. Vinkona mín hún Helena sagðist ætla að segja mér upp sem vinkonu. Hún væri svo ung að hún kærði sig ekki um að eiga vinkonu sem væri að verða amma.

Í fyrstu fannst mér þetta ekkert fyndið en svo þegar ég uppgötvaði það að hún sjálf verður AFASYSTIR þá skaut ég því á hana og þá varð "silence of the lambs" Cool

Nú er þetta bara spennandi og ég er byrjuð að prjóna á ömmustelpuna mína. Sunna er alveg að springa úr spenningi og segist sko vera LÖNGU tilbúin til að verða móðursystir Tounge

hér er svo litla Birgisdóttir Heart

prinsessa Birgisdóttir


Flensubælið á Álftanesi

Eitthvað virðist flensan ætla að stinga sér niður á þessu heimili. Í tæplega hálft ár hef ég verið með stíflaðar ennis- og kinnholur og farið á 3 sýklalyfjakúra en án árangurs.

Undanfarnar 2-3 vikur hefur svo hósti bæst í safnið hjá mér með tilheyrandi "ánægju". Nú hefur hóstinn smá ágerst svo þegar ég byrja á mínum "vinsælu" hóstaköstum, þá linnir þeim ekki fyrr en ég æli upp þó nokkru magni af slími! Ég er samt með sterapúst sem virðist ekki hafa neitt að segja.

Nú er hóstinn orðinn svo slæmur að mig bæði verkjar niður í lungu og slímið sem ég æli upp er mjög mikið í senn.

Nú er litla skottið mitt að bætast í hópinn og er mér alveg hætt að lítast á blikuna. Vona samt að hún verði ekki eins slæm og ég.

Annars frétti ég það hjá Dísinni minni að 10 kennarar hefðu verið veikir sama daginn í skólanum....semsagt tóm hamingja!

Að ná á heimilislækni er erfiðara en að ná á forsetanum sjálfum. Biðin til læknisins er vika eða meira. Ætli ég verði ekki bara að planta mér fyrir utan dyrnar hjá honum og bíð eftir að hann þurfi að fara í mat/kaffi og stökkva svo á hann í von um uppáskrift fyrir meira af sýklalyfjum...svona áður en ég enda með 40°c hita og óráð Pinch


Kæri Ingó Veðurguð.

Okkur fjölskyldunni langar til að koma með smá athugasemd til ykkar veðurguða.

Í þó nokkra daga höfum við haft rigningu og rok svo börnin fjúka heim úr skóla í orðsins fyllstu merkingu og bílarnir nánast halda sér ekki á veginum.

Okkur finnst þetta vera orðið gott! Þetta með að hitinn skipti sér frá -10°c og upp í aðrar 10°c nánast á sama deginum er dálítið flókið því þegar við förum út á morgnana þá klæðir maður sig eftir VEÐRI. Svo þegar lagt er af stað heim þá er maður svo kapp klæddur að sjaldan hefur sést annað eins!

Stefáni mínum finnst að þessi úrkoma og "logn" á hraðferð megi gjarnan breytast í alvöru stórhríð með meiru en þar greinir okkur á.

Ég er ekki að óska eftir sól og 30°c á Bahama heldur bara mildara og þurru veðri...svona til tilbreytinga.

Endilega ræddu þetta mál og endurskoðið þessa úrkomustöðu ykkar.

Ykkar vinir af Álftanesinu Wink


heimsins mesta óréttlæti

Það eru ansi margir sem telja lífið vera sjálfsagðan hlut. Það er því miður ekki þannig og eins og máltækið segir þá veit enginn sína ævi fyrr en öll er.

Ég þekki ungan dreng sem er aðeins yngri en ég. Það sem ég hef kynnst af þessum ágæta dreng er bara frábært. Duglegur, samviskusamur og góður.

Þessi ágæti drengur var seinn til að kynnast dömu en hann kynntist einni fyrir nokkrum árum og urðu þau mjög hamingjusöm. Þau fóru "réttu" leiðina, semsagt trúlofuðust, giftust ári síðar, keyptu sér fallegt hús sem þau höfðu safnað vel fyrir, nýlegan fjölskyldubíl og þá var komið að því að eignast barn.

Eitthvað gekk brösuglega að koma barninu "undir" en það hafðist og voru þau að vonum óskaplega hamingjusöm. Bæði í góðri vinnu og nú var bara að bíða eftir unganum.

Þau fengu það staðfest að barnið ætti að koma í heiminn í kringum 1.febrúar 2010 og fóru þau samviskusamlega saman í allar mæðraskoðanir og tilheyrandi.

Rétt fyrir jólin var hann svo fluttur á sjúkrahús þar sem eitthvað alvarlegt virtist vera að. Við skoðun kom alvarlegur hjartagalli. Honum var brunað á aðgerðarborðið hið snarasta og reynt að laga vandamálið.

Einhverjum dögum síðar fékk hann svo að fara heim en var ekki með neitt þrek. Eftir nokkra þreklausa daga fór hann aftur á spítalann og komust þeir að því að hjartað sló ekki í "takt" svo þeir þurftu að opna hann aftur, stöðva hjartað og koma því svo aftur í gang.

Manni þætti þetta eitt og sér alveg nóg af því góða. Hann fer svo heim aftur nokkrum dögum síðar.

Ekki hefur hann náð upp þrekinu almennilega svo læknarnir fóru og skoðuðu röntgen myndirnar aftur til að skoða hvort eitthvað hafi farið framhjá þeim.

Til mikillar undrunar kom í ljós krabbamein í lifrinni.

Honum er enn og aftur vippað inn á spítalann til frekari greiningar og var þetta niðurstaðan. Krabbamein er það heillin og fer hann í uppskurð í næstu viku og væntanlega áfram í einhverja meðferð.

Eiginkonan ófríska situr heima og grætur sálufélaga sinn sárt. Gæti það farið svo að hún verði ekkja innan við þrítug með eitt barn?

Lífið er ekki sjálfsagt. Ég hef komist að því í gegnum árin.

Ég er þeirrar lukku aðnjótandi að eiga 3 heilbrigð og falleg börn. Eitt barnanna var kannski ekki svo heilbrigt sem ungabarn og var ekki hugað líf en hún er enn meðal okkar í dag sem kallast kraftaverk. Þegar ég vakna á morgnana, byrja ég á því að kíkja á krakkana mína til að kanna hvort ekki sé allt með felldu. Þegar það hefur verið kannað er ég óskaplega þakklát fyrir að vera á lífi og eiga fjölskyldu.

Ég þakka upp á hvern dag. Lífið er eins og hraðbraut. Stundum þarf maður að fara á sveitavegina til að komast áfram en aldrei má maður leggja árar í bát og gefast upp þrátt fyrir grýttan farveg.

Eigið glaðan dag og þakkið fyrir það sem þið eigið og grátið ekki það sem þið eigið ekki.

fjölskyldan mín


Hollusta dagsins, alla daga =)

Nú skal tekið á því.

Ekki það að ég hafi gefið einhver áramótaheit en ég ætla samt að taka á því.

Fór í Heilsuborg og fékk þar ráðgjöf lækna, sjúkraþjálfa og hjúkrunarfræðings. Allir sérfræðingarnir tilbúnir til að leggjast á eitt og aðstoða mig við að ná árangri með minn kropp sem hefur ekki verið mikið til frásagnar upp á síðkastið.

Ég bíð eftir hjartaaðgerðinni og veit að nú fer að líða að henni. Ekki veitir af.

Ég hef gert nokkrar tilraunir til að hreyfa mig að einhverju marki og þá með leiðsögn sérfræðinga eins og sjúkraþjálfa en bakið mitt neitar að gefa mér séns á hreyfingu. Ég reyni og það eina sem ég uppsker er meiri sársauki sem leiðir niður í fætur svo ég get hvorki setið né staðið. Reyni göngutúra en það er bara ekkert betra. Spurning hvað ég geri næst.

Ég hef verið að hugsa hvað maður sé að elda og næringarinnihald og þess háttar og komst ég að einum rétti sem ég sauð saman sem er mjög næringarríkur og hollur.

Hakkréttur að hætti Helgu 

400-500gr hakk

1 góður laukur skorinn í bita

150-200 gr gulrætur skornar í sneiðar

2 paprikur skornar í teninga

1 dós maískorn (ekki safinn)

1 krukka salsasósa (styrkleikinn eftir hversu sterkur maður vill hafa réttinn)

3 hvítlauksgeirar pressaðir

salt, pipar og annað krydd sem hentar hverjum og einum.

aðferð:

hvítlaukurinn og laukurinn brúnaður í olíu og hakkið sett útí. Kryddað með salt, pipar og jafnvel fleiru góðu kryddi ef vill.

þegar hakkið er orðið tilbúið er grænmetið sett útí ásamt salsasósunni og leyft að krauma í ca 10 mínútur við vægan hita.

Rétturinn er þá tilbúinn.

Þetta er ótrúlega gott =)


Litlir andvökugormar

Nóttin einkenndist af andvöku, veseni og rafmagnsleysi.

Stöllurnar Hólmfríður Sunna og Fanney Lísa fengu að gista hér í nótt. Það er svosem ekkert einsdæmi en nóttin í nótt var sem betur einsdæmi...eða ég vona að ég upplifi ekki fleiri svona nætur í bráð.

Það átti aldeilis að taka á svefn-snúningnum og stelpurnar reknar inn í rúm um klukkan 22:00.

Þær voru ekki þreyttar svo þær sofnuðu ekki strax. Ég ákvað að láta Söndru Dís lesa fyrir þær eina sögu eða svo til að ná þeim niður en ekki gekk það.

Um miðnætti voru þær ekki sofnaðar og fór Stefán inn og ræddi við þær. Fljótlega sofnuðu þær.

Um tvö heyrði ég í sjónvarpinu frammi. Ég skrölti fram til að athuga hvað væri í gangi og þá mættu mér tvær sprækar dömur að horfa á sjónvarpið!

Ég rak þær inn í rúm með harðri hendi og sagði þeim að fara að sofa eins og skot.

hálftíma síðar eða rúmlega það heyri ég skruðninga inn í herbergi hjá stelpunum. Ég fer til að athuga með það og þá sátu þær að spila inn í herbergi. Halló! klukkan er að verða þrjú að morgni!!

Henti þeim í rúmið aftur og sagðist verða fjúkandi reið ef þær voguðu sér framúr rúminu á næstunni.

Ekki leið á löngu þar til Dísin mín mætti á svæðið og sagðist ekki geta sofnað. Ég hélt í alvörunni að ég yrði ekki eldri þann daginn.

Ég sendi hana inn í rúm með þau skilaboð að hún ætti að telja kindur. Vonaðist til þess að fá frið enda klukkan orðin 03:30.

Ekki varð það að ósk minni því Dísin kemur aftur og þá með þau skilaboð að ekkert rafmagn sé á herberginu hennar. Þar sem hennar herbergi er tengt bílskúrnum þorði ég ekki annað en að kíkja á málið. Ég skrölti inn í bílskúr og ætlaði að grípa vasaljós til a'ð kanna rafmagnstöfluna, greip ég í tómt. Vasaljósið var óvirkt og ekkert ljós að finna í skúrnum og fikraði ég mig áfram í myrkrinu og rak mig í lukt sem var í "viðgerð" hjá Stefáni mínum. Eftir nokkrar fortölur klukkan 4 um nóttina ákvað ég að reyna að halda áfram að slá inn rafmagninu hjá Dísinni. Ísskápurinn var í gangi svo ég opnaði hann til að fá lýsingu við það sem ég var að gera.

Eftir smá vesen við að ná í rafmagnstöfluna og slá inn rafmagninu sá ég að dýrin í skúrnum voru bæði vatnslaus og matarlaus svo ég fór í það að brynna dýrunum og gefa þeim að borða.

Loksins var allt eins og það átti að vera og ég skreið í rúmið í þeirri veiku von um að fá svefn það sem eftirlifði nætur.

Ég átti samt í mesta basli við að sofna því bakið kvartaði sáran ásamt hálsinum svo ég varð að telja kindur sjálf þegar upp var staðið. Ég náði samt að sofna á endanum.

Ég vaknaði þegar Stefán minn fór til vinnu og var fegin að geta lagst á hina til að sofa áfram enda fannst mér ég varla hafa náð að sofna.

klukkan 9 vaknaði ég aftur við stelpurnar og þá voru þær bara kátar og "út sofnar" Ég höndlaði það ekki að fara á fætur þá. Þreytan hafði yfirhöndina og ég skreið aftur uppí. Gjörsamlega búin á því.

Stöllurnar voru bara kátar í dag og þeim heitið því að þær færu MJÖG snemma í háttinn. Mín dama fór rúmlega 8 upp í rúm.

Sunna og Fanney

Sunna og Fanney

Sunna og Fanney

Sunna og Fanney

 


Gleðilegt ár =)

áramót 09 

áramót 09

Við fjölskyldan áttum notaleg áramót heima með grislingum. Reyndar vantaði einn grislinginn en spurning hvort bætist ekki úr næstu áramót og þá svo um munar því Viktorían mín á von á sér í júní. Hún og kærastinn eru að byrja búskap svo það mun verða glatt á hjalla hjá þeim innan fárra mánaða. Ég lét ekkert myndavélina neitt sérlega í friði svo ég náði að fanga eitthvað af flugeldunum sem skotið var upp bæði hjá okkur og nágrönnum.

Ég leigi stúdíó inn í Reykjavík og þangað dröslaði ég fjölskyldunni minni þann 2. janúar til að mynda liðið. Það vildi svo skemmtilega til að ég náði að hóa öllum sem skiptir okkur máli saman svo úr varð allsherjar myndataka.

Pabbi með börnin sín fjögur og fjögur barnabörn. Allir voru með sem er bara gaman.

 

Hér má sjá eitthvað af myndunum en eins og svo oft áður, þá eru allar myndirnar inn á flickr síðunni minni.

Foreldrar með grislingana sína

Gullmolarnir mínir

Pabbi með börnin sín fjögur

föngulegur hópur

Jóhann bróðir með dóttur sína Sigrúnu

börn og barnabörn pabba


« Fyrri síða | Næsta síða »

hin fagra

Helga Linnet
Helga Linnet

sú eina sanna

Slakaðu á og njóttu lífsins, þú munt aldrei lifa þennan dag aftur

Smelltu á þetta...

vinsældarlistinn

smá könnun

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

336 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband