18.5.2010 | 09:38
misskilningur á misskilning ofan
Nú á Viktorían mín ekki nema 5 vikur eftir af meðgöngunni. Eins og venjulega lítur hún rosalega vel út þessi elska.
Hún hringir í mig og spyr hvort ég sé til í að koma með henni og skoða fæðingardeildina. Biggi var á sjónum og kemst ekki í land í tæka tíð. Það var sjálfsagt mál að fara með henni og hafði ég ekki síður gaman af því að skoða deildina....án þess að fara sjálf í fæðingu...hef aldrei gert það.
Ég segi við yngri dömurnar mínar að ég þurfi að skreppa og pabbi komi heim innan tíðar. Dísin mín spyr mig hvert ég sé að fara og ég segi henni einfaldlega að ég sé að fara með Viktoríu að skoða fæðingardeildina á spítalanum. Ég kvaddi dömurnar og fór.
Við Viktoría mælum okkur mót. Ég var varla komin út úr húsi þegar mamma hringir í farsímann og ég heyri að henni er mikið um að tala við mig. Spyr hvort ég geti talað og hvort ekki allt sé í lagi. Ég hváði við og sagði að allt væri í stakasta lagi og vissi ekki hvar hún fengi aðrar upplýsingar. Hún vildi ekki svara því og spurði jafnframt hvort Viktoría sé ekki í lagi og hvar hún er.
Ég var ekki alveg að skilja þennan asa og fékk hana til að anda með nefinu og segja mér hvað henni lægi á hjarta.
Þá hafði hún móðir mín hringt heim og fengið þær upplýsingar hjá stelpunum heima að ég væri inn á fæðingardeild með Viktoríu!!!!!!
Svona getur misskilningurinn orðið.
Inn á fæðingardeildinni hitti ég gamla kunningjakonu sem er alltaf jafn almennileg þegar við hittumst. Hún varð stóreyg þegar hún sá mig með hópnum sem var að skoða fæðingardeildina og spurði hvort ég væri að koma aftur!?....Nei..ég benti á dóttur mína og sagði að ég væri bara með henni, þá stækkuðu augu hennar enn frekar og ég heyrði að hún fékk smá sjokk þegar hún sagði: "ha! ertu að verða AMMA?"
Ég hló við og sagðist ekki svo vera...heldur væri hún Viktoría mín bara að verða mamma
Ég veit ekki hvar fólk heldur það að ÉG sé að verða AMMA....bara skil þetta ekki!!
Skemmtilegur heimur
hér er svo prinsessan mín komin 30v
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.5.2010 | 23:21
...á þessu heimili er kynskiptingur!
Þetta heimili er eiginlega dýrabær. Hér er að finna hinar ýmsu tegundir dýra og höfum við reynt að hafa kynskiptinguna nokkuð jafna.
Í stofunni er 300L fiskabúr með stórum gullfiskum og er nokkuð jöfn skipting á milli "kvenna" og "karla" í búrinu að undanskildum sniglunum sem einfaldlega breyta kynhneigð sinni eftir þeirra "huga"...ef hann annars er!
Svo má finna aðeins stærri dýr eins og Naggrísinn Mikka sem yngsta dýrið mitt á og er hann voðalegur prins...lætur allt yfir sig ganga...svo sem að láta klæða sig í dúkkuföt, troða sér í dúkkuvagna og fara út að ganga.Svo kemur hún Kara sem er nú kannski ekki alveg jafn samvinnuþýð og Mikki og lætur alveg í sér "heyra" ef hún er ekki sátt við það sem henni er boðið.
Svo kom að því að það átti að fara með Köru út að ganga og var fundið til beislið hennar og því troðið á. Eins og áður hefur komið fram þá lætur hún ekki allt yfir sig ganga svo það þurfti dálitla útsjónarsemi að koma ólinni um hálsinn og utan um búkinn svo hún sleppi ekki svo auðveldlega. Sunna mín var að hjálpa mér og bað ég hana um að vippa ólinni utan um hana um leið og ég héldi henni niðri.
Ég sný kanínunni á bakið til að setja ólina utan um búkinn og þá rekur Sunna augun í spenana hennar og bendir á þá að þeir séu kannski bara full stórir svona miðað við það að ekki séu ungar á spena. Ég lít á þessa stóru spena og sé þar sem þeir líktust frekar hnetum en spenum.....mér bregður við þetta því í tæpt ár hefur þetta dýr verið HÚN og þarna var ég ekki að ná því að "hún" breyttist í "hann" á ca 5 sekúndum!
Ég geri lítið úr þessu og sendi hana út að ganga með "hana" Köru. Á eftir sat ég hugsi inn í stofu. Mér leið eins og einhver hefði slegið mig utanundir...ekki það að það sé slæmt að kanínan skuli hafa verið strákur þegar upp var staðið...heldur hvernig breytir maður nafninu Kara í strákanafn?!?!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.3.2010 | 14:02
óborganleg svör yngstu dótturinnar
Þessi yngsta á heimilinu á það til að svara þannig að við foreldrarnir vitum ekki hvort við vorum yfir höfuð að koma eða fara.
Í gær átti daman að þrífa búrið hjá naggrísnum sínum og óx það henni svo í augum að hún hafði sig ekki í það. Í raun er þetta snögg gert og einfalt ef maður á annað borð veit hvar maður á að byrja.
Inn í bílskúr fer daman vopnuð gúmmíhönskum og plastpoka.
tæpum 2 tímum seinna kíkti ég inn í bílskúr til að kanna stöðuna en þá var hún gjörsamlega óbreytt. Daman sat á gólfinu, enn í gúmmíhönskum og klappaði grísnum ásamt því að sveifla "skítaskóflunni" yfir höfði sér. EKKERT hafði gerst í hreinsunarmálunum.
Ég kalla á dömurnar í mat og ræði svo við Sunnu mína um þetta mál að hún verði að herða sig upp og gera eitthvað í málinu. Benti henni á að það væri einfaldlega best að hún tæki annan endann á blöðunum í búrinu og rúllaði því upp með öllu tilheyrandi og henti þessu í einni rúllu ofan í plastpokann.
Daman var nú ekki lengi að svara þessu og bað mig vinsamlega að koma og sýna sér hvernig ÉG gerði þetta og klára málið sjálf.
Svo í morgun var árshátíð í skólanum hjá henni og áttu foreldrar að koma og sjá einhverja sýningu sem þau voru með. Börnin áttu að mæta í fyrirfram ákveðnum "búningum" og voru það blómabolir eða sumarlegir kjólar.
Í fyrsta sinn í morgun greindi okkur mæðgum á í hvað best væri að fara. Hún dró fram bláan gallakjól með bangsa framan á en móðirin dró fram bleikan stuttermabol með blómum framan á og brúnt flauelspils við.
Hún var alskostar ekki sátt við það fataval svo hún dró fram hvítan kjól með bláum blómum og grænar buxur við.
Ekki fannst móðurinni þetta mikið til koma svo samningaleiðin var tekin á þetta. Úr varð hvíti kjóllinn með bláu blómunum og bláar kvartbuxur við.
Til að toppa það kom hún með BRÚNA teygju í hárið....en það sætti mamman sig ekki við og náði í bláa teygju. Ég er bara nokkuð viss um að krakkinn sé LITBLINDUR...hef aldrei séð annað eins litaval!!!
Eftir að hafa greitt, pússað og klætt þá var strunsað út í bíl og þar ætlaði ég að setja bílinn í gang. Eitthvað var hann tregur til að fara í gang og heyrðust bara skruðningar í startaranum þegar ég reyndi að starta. Ég reyndi nokkrum sinnum og var alveg handviss um að nú væri ég að skemma eitthvað svo ég var að því komin að labba með hana í skólann.
Þá heyrðist í aftursætinu:
Mamma, snúðu bara lyklinum lengra og haltu honum inni þar til bíllinn fer í gang.
Ég benti henni á það að ég þyrði það ekki því ég gæti skemmt eitthvað. Ákvað að prufa svona einu sinni (þar sem bíllinn er hvort eð er enn í ábyrgð) og enn héldu óhljóðin áfram í bílnum en bíllinn hrökklaðist svo í gang.
Þá heyrðist í aftursætinu:
Sko mamma, ég SAGÐI þér það
Mig langaði helst að skutla krakkanum út úr bílnum og láta hana labba
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2010 | 10:52
Gangur lífsins
Það er nú ekki oft sem ég leggst í dvala en ég hef alveg verið á jaðrinum samt undanfarna daga. Stoðkerfið er eins og dómínó og þegar eitt "hrynur" er eins og keðjuverkun fari í gang og eftir smá stund er allt farið!
Eftir áreksturinn 2007 fór öxlin eitthvað í "burtu". Ég hef verið sprautuð reglulega til að halda henni í skefjum en það er að verða ljóst að ég þarf líklega í aðgerð þar sem mér verður flett eins og banana og skrapað af axlarbeininu. Hugguleg tilhugsun...eða ekki. Bakið hefur heldur ekki verið stöðugt og sífelldir verkir í hálsinum eru að æra mig í bókstaflegri merkingu. 3 hálsliðir skemmdust við áreksturinn og er efast um að þeir lagist nokkurn tímann.
Síðustu daga hefur góður "vinur" verið hjá mér en það er hann Parkódín Forte. Hann hefur náð að lina verstu verkina og gert mér kleyft að sofa á næturnar, allavega að hluta.
Það hefur samt ekki aftrað mér að sinna ástríðu minni en það er myndastússið mitt. Ég er alveg að fíla þessa iðn og er því ekki frá skotið að ég fari og læri þetta og nái mér í réttindi svo ég geti auglýst sjálfan mig eitthvað.
Ég hef aldrei auglýst mig en það hafa verið þónokkur símtöl og mér sendur tölvupóstur til að kanna hvort ég sé tiltæk í myndatöku. Ég leigi stúdíó í Reykjavík og hef fengið marga þangað.
Viktoría mín kom svo til mín um daginn (að ósk mömmu gömlu) í listræna bumbumyndatöku og var þetta frumraun mín í slíkri myndatöku. Það var eins og maður hafi aldrei gert annað því þetta heppnaðist frá fyrstu mynd.
Auðvitað dró ég Ólöfu Helgu frænku með mér í þetta svo við gætum lært saman og hjálpa hvor annarri. Hún er með ólæknandi ljósmyndaáhuga eins og ég (enda nöfnur) en hún er meira fyrir tískuljósmyndun en ég í þessu listræna "stöffi".
Hér kemur svo árangur okkar í myndum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2010 | 09:09
Nú er úti veður vont
Maðurinn minn hefur verið að keyra trailer þarna ansi oft. Í gær var engin undantekning og var hann á leið í bæinn með mikið hlass. Hann fylgdist vel með veðurspánni og honum fannst það óráðlegt að reyna frekari heimför svo hann lagði bílnum í Borgarnesi og fékk sér bara gistingu.
Þetta kallast skynsemi og væri gott ef fleiri gerðu slíkt hið sama. Er svo ótrúlegt þegar fólk er að reyna að fara svona þegar veðrið er eins og það er og jafnvel ekki á nógu vel skóuðum bílum.
Það er víst ekki nóg að fylgjast með út um gluggann
Fastir undir Hafnarfjalli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2010 | 23:26
Peningaþvottur
Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það er ekkert mál að stunda peningaþvott. Allavega ekki þegar snjóar og hríðar svona mikið eins og undanfarinn sólarhring...þá er þetta verk ótrúlega einfalt.
Hinsvegar er það ekkert skemmtilegt þegar það kemst upp....því það bitnar allt á manni sjálfum. Það er samt betra að vera vel á varðbergi og taka til sinna ráða þegar upp kemst.
Í gær byrjaði peningaþvotturinn hjá mér en hann endaði svo snögglega í morgunn þegar upp komst um athæfið og uppi varð ævintýri að þurrka slóðina svo vel væri.
Uppskriftin er samt einföld. Ég læt hana fylgja hér en ég ráðlegg svosem engum að reyna þetta...allavega ekki ef ykkur er annt um heimilið!!!
Uppskriftin:
Fylgist vel með veðurspánni og og veðuráttinni. Þegar spáð er hríð þá skaltu opna glugga sem snýr í áttina að áætlaðri hríðinni upp á gátt, setja stóran sparibauk fullan af smápeningum fyrir neðan gluggann (á sólbekkinn), draga fyrir gardínur og bíða svo nóttina.
Um morguninn skaltu fara með nokkur handklæði að glugganum (til að vera viðbúinn því versta) og þegar þú kíkir í gluggann þá á að vera búið að hríða svo mikið inn að gluggakistan er (eða ætti að vera) full af klaka og vatni og sparibaukurinn ætti að innihalda jafn mikið vatn og klink (í millilítrum talið). Hellið vel og vandlega úr bauknum og reynið að þerra eins mikið af klinkinu og þið getið án þess þó að taka það úr bauknum. Þurrkið vandlega úr gluggakistunni til að skemma ekki neitt. REYNIÐ svo að loka glugganum...kannski þarf að fara út í hríðina og brjóta klakann frá.
Endurtakið þetta eins oft og þurfa þykir.
Hér læt ég svo fylgja nokkrar myndir af rósinni sem minn heitt elskaði eiginmaður gaf okkur stelpunum á konudaginn (ein á hverja dömu)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2010 | 10:35
Það sem gefur lífinu lit
Lífið gengur sinn vanagang svona að megninu til. Ég er loksins að hressast eftir að ég fékk sterasprautur í kjálkavöðvana. Heyrnin að koma aftur smátt og smátt en bölvaður hóstinn er enn til staðar en þó ekki mjög mikill. Held svei mér þá að ég sé með ofnæmi fyrir einhverju sem ekki hefur komið fram áður!
Allavega þá fer ég reglulega í góða hreyfingu svona til að styrkja hjartavöðvana áður en ég fer í hjartaaðgerðina (sem verður fljótlega) og vikulega hef ég farið með A-klúbbnum "mínum" (sem er klúbbur áhugaljósmyndara) vítt og breitt um suðurlandið.
Í gær var það engin undantekning og fórum við austur og þá næstum að Vík! Stoppuðum á nokkrum stöðum til að fanga myndefni. Veðrið var æðislegt og hitinn var um frostmark og nánast heiðskýrt.
hér eru nokkrar af myndunum sem ég tók á þessu ferðalagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2010 | 12:53
Hinn blíði Batman
Ólöf mín er í prófum í dag svo ég tók við Batman í gær svo hann sé ekki svona lengi einn heima.
Ég og Batman erum ótrúlega góðir vinir og má hann ekki af mér sjá. Oft hef ég hugsað til þess að ef hann væri ekki hundur þá væri hann að bera í mig allskonar góðgæti og jafnvel blóm, svo mikið dýrkar hundurinn mig
Í gær vorum við bara að kúra saman í sófanum og ekkert vandamál og svo fór hann inn í búrið sitt þegar ég fór að sofa. Um morguninn fékk hann svo að fara út úr búrinu og var að sniglast í kringum mig.
Kom krökkunum í skólann og fór svo að taka mig sjálfa til í ræktina og í annir dagsins. Myndataka átti að vera í skólanum af 45 börnum í 2.bekk svo það þurfti að hafa allt á hreinu.
Þegar ég var að fara að klæða mig þá kom Batman til mín. Hann hafði "horfið" smá stund og ég hélt að hann hefði bara skottast í búrið sitt á meðan ég mátti ekkert vera að því að kela við hann.
Ég sé að hann er komin með eitthvað leikfang í kjaftinn og var svosem ekkert að kippa mér upp við það nema að þetta leikfang hafði ég aldrei séð áður. Hann leit á mig og ég ákvað að kveikja ljós til að sjá hvað hann væri með og þegar ég sá hvað hundurinn lagði fyrir framan fæturna á mér þá rak ég upp óvænt óp!
Aumingja dýrið fór að bera "gjafir" í mig og í þetta skiptið voru það engir konfektmolar eða blómvendir heldur eitt stykki M Ú S
Aumingja hundurinn skakklappaðist í burtu með skottið á milli lappa og inn í búr ansi skömmustulegur.
Ég fór að vinna í því að fjarlægja ógeðið og þegar það var búið varð ég að fara og knúsa hann. Hann vildi jú ekkert annað en gott.
Sennilega fæ ég martraðir næstu nætur og sé mús í hverju horni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
336 dagar til jóla
Myndaalbúm
Tenglar
áhugavert
skoða þetta
- Flickr.com myndirnar mínar á flickr
- Margrét frænka Athygliverð stelpa
- Eyrún og Jobbi verkfræðingar með meiru
- Ólöf Helga sæta músin mín