27.8.2007 | 14:09
ljótir gaurar!
Við ákváðum að taka smá menningarrúnt á Akureyri um helgina. Við skruppum með börnin í tívolíið (ef tívolí skal kallast) og leyfðum þeim að fara í sitt hvort tækið. Eftir það ákváðum við að fara aftur í göngugötuna til að fylgjast með. Klukkan var orðin 22 svo það fór nú að styttast að við færum með börnin heim í rúmið.
Við skelltum okkur á milli húsa, Glitnis og Græna hattsins og Sunna litla labbaði rétt á undan okkur með einni vinkonu sinni sem er ári eldri en hún. Við gengum á eftir þeim og sjáum hvar unglingahópur labbar á móti okkur. Sunna segir ekkert en strákarnir voru með buxurnar á hælunum og með toppinn í augunum. Þegar drengirnir voru komnir um 5 metra fyrir aftan okkur heyrist í þessari stuttu segjandi við vinkonu sína; "vá, þetta voru nú ljótir gaurar mar"
Við gátum ekki annað en hlegið því hún meinti þetta svo innilega. Vinkona mín sagði þá hneyksluð; "Fyrirgefðu....en ertu ekki bara FIMMÁRA??"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.8.2007 | 13:56
marin á tá og hring.....eða bara hring....
Við fengum hringana okkar sem við pöntuðum fyrir brúðkaupið. Ekki var innifalin gröftur í hringana svo ég ákvað að fara með þá bara á einhvern góðan stað til að láta grafa fyrir okkur. Ég sting hringunum í töskuna og sagði við Stefán að þar sem við erum að fara norður núna, væri bara gott að fara með hringana með okkur og skilja þá eftir þar svo við myndum pottþétt ekki gleyma þeim heima!
Á Akureyri eru jú gullsmiðir eins og hér. Við förum á laugardeginum með hringana í verslun í bænum. Viðkomandi verslunareigandi þekkti til tengdó og ætlaði að flýta fyrir greftrun en við báðum hann að taka sér þann tíma sem hann vildi ef hann nennti að taka þá með sér og koma yfir til tengdaforeldra minna. Jú, að sjálfsögðu var það ekkert mál. Það þekkja jú allir alla þarna allavega af þessum gömlu grónu svo þetta var lítið mál. Við myndum svo bara gera upp við hann þegar við kæmum aftur í bæinn.
Seinna um kvöldið var bankað og þar var gullsmiðurinn/úrsmiðurinn með hringana okkar. Við þökkuðum kærlega fyrir skjót viðbrögð og kvöddum.
Ég var náttúrulega ógurlega spennt að sjá hvernig þetta var gert og tek hringana úr boxinu. Þá kom það í ljós að þeir voru illa rispaðir. Ég set þá betur upp í ljósið og sá djúpar rispur í hringnum nánast alla leið. Greinilega eftir vélina eða eitthvað álíka en það breytti því ekki að ég var óskaplega döpur yfir því. Þetta voru dýrir hringar og allt of fallegir til að láta þetta viðgangast. Við betri skoðun sá ég að það var djúpt mar við demantana í mínum hring. Marið var eins og einhver hefði lamið með þungu og frekar oddhvössu barefli í hringinn.
Það eina sem ég hugsaði innra með mér að þarna fóru hringarnir fyrir lítið. Ég pakkaði þeim aftur niður í öskjuna og bað Stefán um að koma mömmu sinni í málið og fá hana til að fara með þá í lagfæringu.
Hann biður mömmu sína um það og hún tók vel í það. Í morgun fór svo tengdó með hringinn til annars gullsmiðs sem fórnaði bara höndum yfir fegurð hringjanna og jafnframt yfir því hvað marið á mínum hring var bæði slæmt og svo hvað það var nálægt demanti sem gerði verkið enn erfiðara. Konan náði að minnka marið og ná flestum rispum í burtu. Ég verð bara að sætta mig við það....þó svo að það verði erfitt. Maður hugsar sig um allavega aftur ef maður lætur gera eitthvað svona fyrir sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2007 | 13:23
Astmakennd hljóð í jeppanum
Það á ekki að ganga upp þetta með bílinn!
Við fengum bílinn á fimmtudaginn aftur. Stefán kom heim á drauma kagganum sínum og langaði svo að sjá hvernig ný Patrol vél lítur út svo hann ákvað að kíkja undir húddið á bílnum. Þegar hann stígur út finnur hann skrýtna lykt. Hann mat svo að þessi lykt væri af frostlegi svo hann kíkti ofan í húddið og sá ekkert og leit undir bílinn og sá þar sem bíllinn "meig" frostlegi. Hann hringir í neyðarsímann hjá IH og segir þeim hvað væri og þeir sendu Vöku eftir bílnum. Vaka kom og tók bílinn en skildi ekki neinn eftir í staðinn svo Stefán þurfti að fá lánaðan bíl. Við ætluðum norður á föstudeginum svo það var orðið spennandi að vita hvort við þyrftum að fara á Yaris og skilja alla eftir í pössun eða hvort jeppinn kæmi í tæka tíð.
Jú, jeppinn kom og sögðu þeir að þeir hefðu gleymt að setja hosu klemmu eða e-ð álíka sem gerði það að verkum að slangan slitnaði frá vatnskassanum (eða e-r staðar þar). Af stað fórum við á jeppanum með börnin með.
Sunna litla er búin að vera með slæman astma og var hóstandi út í eitt. Við þurftum að koma við í vinnunni hjá Stefáni til að taka bílinn sem hann var með í láni og skila honum. Stefán bauð mér að taka jeppann og keyra á "skilastað". Ég spurði Stefán fyrst hvernig honum finnist bíllinn og hann svaraði mjög loðið, jú, allt í lagi.
Ég keyri jeppann í Mos þar sem við skiluðum hinum bílnum og þegar Stefán kom aftur inn í bílinn benti ég honum á það að mér finnist krafturinn ekki vera mikill miðað við hvað vélin á að skila. Eins vildi ég sko ekki vera á gatnamótum þar sem maður þyrfti að drífa sig yfir vegna þess að það gerðist eitthvað minna þegar stigið var á olíugjöfina. Hann hummaði þetta og hélt áfram.
Við vorum í Hvalfjarðargöngum þegar Stefán ákvað að taka frammúr á vinstri akrein. Hann skiptir yfir, setur í "Essið" og gefur honum inn. og hvað gerðist?? EKKERT...bíllinn hafði ekki kraft. Túrbínan kom ekki inn og það gerðist ekkert. Ég verð vör við það að ekki er allt með felldu en ákvað að minnast ekki á neitt. Stefán er eins og hann er, segir EKKERT og skiptir aftur yfir á hægri.
Þegar nálgast Holtavörðuheiði var Sunna farin að hósta svo mikið að hún var farin að kúgast. Ég var alltaf að reyna að tjúna miðstöðina inn en ekkert virtist ganga að hita bílinn. Ég set miðstöðina á fullt afturí hjá stelpunum en ekkert gerðist. Þá gat ég ekki orða bundist lengur og minntist á það að það væri allt of kalt í bílnum til að hafa börnin í og þar af með hálf veikan krakka. Stefán biður mig um að hækka bara meira í miðstöðinni, þetta væri nú ekki mikið vandamál en ég sagði við hann að vandamálið væri dýpra en það þar sem það kæmi einfaldlega ekkert heitt úr miðstöðinni.
Eftir smá fikt og pot komst hann að því sjálfur að það var eitthvað að. Hann hringir í IH (í neyðarsímann enn einusinni) og fær bara talhólf sem hann skilur eftir nafn og símanúmer. Þegar við vorum að nálgast Brú ákvað hann að stoppa þar þar sem hann var farinn að renna það í grun að þeir hefðu gleymt að setja frostlög á hann eftir síðustu viðgerð. Í því hringir síminn og þar talar hann við mann sem fannst þetta afskaplega leitt allt saman. Stefán stoppar í Brú og ég hendist inn til að kaupa eitthvað að drekka handa okkur. Þegar ég kem út aftur sá ég hvar Stefán hafði lagt bílnum á þvottaplaninu og var að dæla vatni inn á bílinn og enn með símann við eyrað.
Þegar hann lauk símtalinu kom það upp úr dúrnum að þeir hefðu gleymt að setja vökva á vélina sem hefði geta endað með ósköpum ef hann hefði ekki verið svona vakandi yfir þessari "bilun". Ef við hefðum farið alla leið norður er ekki víst að við hefðum komist nema bara það og það hefði þurft að setja nýja vél í aftur. Ekki okkar vandamál en mér var bara alls ekki skemmt.
Eftir að vatni hafði verið bætt á, þá fór bíllinn skyndilega að vinna eins og hann átti að gera, miðstöðin kom inn og barnið hætti að kúgast af hóstanum. Ég var orðin svo pirruð eftir þetta að ég var farin að fara yfir það í huganum hvernig málsóknin gegn IH ætti að vera háttað ef barnið hefði svo endað inn á spítala eftir öll ósköpin. Það vita það allir að þeir sem eiga við astma vandamál að stríða, þeim er ekki hollt að dvelja lengi í kulda. En þegar hitinn komst í kroppinn aftur var ég orðin mýkri.
Nú er bíllinn aftur inni á verkstæði hjá IH til yfirhalningar. Eins gott að þeir verði ljúfir við okkur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.8.2007 | 12:28
Góður réttur
Ég fékk uppskrift í gær að hollum og góðum rétti. Ótrúlega einfaldur og mjög góður. Það var einkaþjálfinn minn sem sagði mér frá þessum rétti. Ég prufaði hann og sé sko ekki eftir því
2 túnfiskdósir
2/3 dós kotasæla
vel af frosnu grænmeti (brockoli, gulrætur, blómkál)
1 pk rifinn ostur (gott að setja gratínost)
grænmetið sett í eldfast mót
vökvanum af túnfisknum hellt og blandað við kotasæluna. Kryddað eftir smekk og sett yfir grænmetið. Rifna ostinum stráð yfir og þetta gratínerað þar til osturinn er orðinn gylltur.
mmmm...þetta var rosa gott
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2007 | 20:36
hrós dagsins í dag fær
Smith & Norland fyrir að nota orðið "athyglivert" . Því miður nota það orðið sára fáir og það vekur athygli mína í hvert skipti sem ég sé það annað hvort skrifað eða heyri það frá öðrum.
Flestir bæta essinu inn í og hafa það "athyglisvert", bæði er rétt að skrifa en persónulega finnst mér það án ess flottara
Eins vil ég geta þess að á síðunni þeirra hjá Smith & Norland hef ég ekki enn fundið stafsetningavillu sem ég vil kalla mjög gott. (ætti í raun að vera sjálfsagt)
Eitt sem mig langar að nefna í þessu samhengi er að ansi margir segja "ég er ekki að nenna þessu" sem er í raun ekkert nema kækur (segi þetta sjálf stundum) en er málfræðilega RANGT að segja. "ég nenni þessu ekki" er að sjálfsögðu rétt að segja.
Annars þurfum við að vera vel vakandi yfir okkar tungumáli, ekki líður langur tími þar til ótrúlegustu slettur verða settar í íslenska orðabók
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2007 | 14:22
það er betra að vera prinsessa í einn dag en fífl alla ævi
Ég fór heim að sinna barninu í gær. Hún sóttist í að horfa á barnaefni sem var í tölvunni minni svo hún náði sér í sængina sína og kodda fram í stofu og ég setti barnaefnið í gang fyrir hana. Ég ætlaði reyndar að vinna svolítið heima en ég lét það um lönd og leið víst tölvan var upptekin.
Í staðinn fór ég að föndra fyrir brúðkaupið. Ég var að setja litla myntumola í skrautpoka og fór þá að velta því fyrir mér hverslags rjómatertubrúðkaup þetta væri að verða! Ég verð með einhvern voða flottan "amerískubrúðkaupsmyndirnar" boga (svona), rosa tertudisk keyptan í ameríkunni líka, flottan alvöru brúðarkjól með slóða og læti, og svo allt smádótið sem ég verð með líka til að gleðja gestina
En ein huggun er í þessu öllu saman, það er að njóta þessa dags til hins ýtrasta því betra er að vera prinsessa í einn dag en fífl alla ævi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2007 | 13:20
fundur, stress og öfgakennd viðbrögð
Litla dýrið mitt kvartaði sáran undan eyrunum í gær. Mamman var ekki á því að hlaupa upp til handa og fóta og fá sýklalyf svo ég ákvað að dópa krakkann bara upp í staðinn .
kl 20:30 fór ég með hana inn í rúm og gaf henni verkjastíl, lagðist svo hjá henni smá stund. Ekki þurfti langan tíma til því hún sofnaði á korteri (eða þann tíma sem tók stílinn að virka). Ég leit á klukkuna og sá að hana vantaði 2 mín. í blak svo ég skellti mér í blak-gallann og bað Dísina mína um að hlusta eftir litlu systir sinni og hringja ef hún vaknaði.
Barnið vaknaði að sjálfsögðu eftir prinsessublundinn svo ég fór heim og var hún þá bara syngjandi kát og glöð .
Nóttin fór svona ofan garð og neðan þar sem verkjalyfin duga bara í 4-6klst og einhverntímann snemma í morgun (jafnvel milli 5 & 6) fór barnið frammúr til að horfa á sjónvarpið. Ég slökkti á klukkunni sem hringdi kl 7 (ég man samt ekkert eftir því) og snéri mér á hina. Það sem verra var, var að Stefán slökkti líka á sinni og steinsofnaði!! Allt of seint vöknuðum við, hann orðinn of seinn í vinnuna og ég að verða of sein á fund sem ég átti .
Það var lítið annað að gera en að dröslast hálf myglaður á fætur, finna til "skárri" föt á sig og henda sér út. Maður var heppinn að muna eftir barninu!! en svo rifjaðist það upp fyrir manni að barnið var kannski bara lasið og hefði helst átt að vera heima . Hvað sem því leið, þá VARÐ ég að mæta á fundinn.
Á leikskólann fór krakkinn með þeim formerkjum að ég kæmi ef hún færi að kvarta aftur í eyrunum en samt ekki fyrr en eftir 1-2 tíma þar sem ég þurfti að mæta á fund.
Ég mætti á fundinn rétt tímanlega. Viðmælandi minn var kona milli 40-50 og það fór óstjórnlega í taugarnar á mér hvernig kæk hún var með. Hún setti þumal hægri handar á hökuna og kleip/nuddaði/snerti eyrnasnepilinn með vísifingri og löngutöng!! Ég missti alveg athyglina á öllu þarna, hugsaði bara um hverlags móðir ég væri að fara með veikt barn á leikskólann og sleit ekki athyglina á þessum kæk á annars ágætri konu
Ég dreif mig í vinnuna svo eftir fundinn. Hamaðist við að finna út úr vandamálum sem lágu á skrifborðinu og þá hringdi síminn. Leikskólinn að láta mig vita af því að barnið gangi nú ekki alveg heilt til skógar í dag. Nú er ég að pakka í vinnunni og er farin heim að reyna að gerast góð móðir!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2007 | 13:27
Sólarvörnin kom upp um mig!
Þegar við vorum komnar í flugstöðina og tilbúnar til að skutla eins og einum Bríser í okkur eða svo, ákvað ég að athuga með góða sólarvörn fyrir mig. Helst vörn sem ver mína ljósu og brunagjarna húð sem jafnframt örvar litafrumurnar til þess að húðin fái samt góðan lit. Ég leitaði í dágóða stund og fann loksins eitthvað voða fansý krem frá Clarins. Hamingjusöm með þennan fund skellti ég mér á kassa til að borga. Jú, ekki var þetta gefins....en vonaðist til þess að þetta væri þá bara þeim mun betra stöff en annað sem fæst Þetta var að sjálfsögðu innsiglað í poka þar sem ég var jú að fara til USA.
Ég held á þessu fram til stelpnanna sem bíða mín. Ég sýni þeim hamingjusöm þennan fund minn. Ég bið þær um að passa þetta á meðan ég og GEB skutumst inn í Epal. Þegar við komum til baka var byrjað að kalla út í vél. Þær koma á harðahlaupum á móti mér og mér afhent fartölvutaskan sem ég var með í handfarangri. Enn með tárin í augunum yfir því hvað kom út úr viðgerðinni á bílnum löbbum við að hliðinu. Ég var í þungu skapi en sagði við stelpurnar að ég ætlaði bara að vera í 40 mín í viðbót í þungu skapi, eftir það yrði ég í góðu skapi.
Við förum í vélina og fljúgum út. Flugið var gott alla leið.
Við lendum í Baltimore og þar þurftum við að bíða eftir töskunum sem voru frekar fáar . Við þurftum að færa okkur innar/utar í flugstöðina til að taka tengiflugið til Orlando.
Til að komast inn í þann helming, þurfti að sjálfsögðu að fara í ítarlega vopna leit....vantaði bara að maður þurfti að berstrípast og sýna alla leið upp í öll göt.... . Ég var spurð hvað ég væri að fara að gera í ameríkunni...ég átti erfitt með að finna svarið...ekki gat ég sagt: "I´m going to shop until I drop!"
Ég sagðist ætla í "frí"....
Það var tekið gott og gilt og ég fékk að fara í gegn.
Nú þurfti bara að tékka inn töskurnar fyrir Orlando flugið aftur. Við tékkuðum inn stóru töskurnar en ég hélt áfram að vera með mína fartölvu í töskunni. Aftur þurfum við að strippast í gegnum allskonar leitarhlið. Allt í einu er ég stöðvuð! Mér sagt að ég gæti ekki farið lengra!! Þau vildu leita frekar á mér!! Ég var ekki að skilja allt þetta fár og mér var sagt að standa til hliðar á meðan leitað væri í töskunni minni (fartölvutöskunni) Ég var poll-róleg yfir því þar sem ég hafði ekkert að fela en annað kom svo í ljós. Ég var enn með brúnku-sólarvörnina í töskunni....
Ég barðist fyrir því að koma þeim í skilning um það að þetta væri enn innsiglað og vörnin enn í upprunalegum brúsa en allt kom fyrir ekkert. Þeir könnuðust ekkert við eitthvað innsigli og hvað þá Ísland yfir höfuð! Helv#$%& Clarins brúsanum var fleygt í ruslið með öllu því sem fylgdi Andskotans ameríkaninn er ekkert annað en þröngsýnn bjáni. Jæja, það var ekkert við þessu að gera annað en það að sætta sig við það að þurfa að kaupa annan úti, hann myndi eflaust vera líka 300x ódýrari en þessi asnalegi Clarins brúsi
.
Í flugið til Orlando héldum við og allt gekk eins og í sögu þar.
Hver veit nema ég skelli inn fleiri "skemmtilegum" sögum í viðbót
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.10.): 5
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 260760
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
80 dagar til jóla
Myndaalbúm
Tenglar
áhugavert
skoða þetta
- Flickr.com myndirnar mínar á flickr
- Margrét frænka Athygliverð stelpa
- Eyrún og Jobbi verkfræðingar með meiru
- Ólöf Helga sæta músin mín