Bloggfærslur mánaðarins, september 2008
30.9.2008 | 11:51
myndarugl
Eins og flestir vita, hef ég mikla ánægju af því að taka myndir. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég er ekki næsta Huggy Ragnarsson eða Annie Lebovits en ég geri þetta á mínum forsendum.
Ég ákvað að reyna að taka myndir af fiskunum mínum sem mér finnst æðislegir. Ekki vegna þess að þeir eru svo skemmtilegir (jú...samt smá..sérstaklega þegar ég er að gefa þeim að borða, þeir eru farnir að borða af fingrunum á mér) heldur vegna þess að þeir eru svo yndislega litskrúðugir.
Hér er eitt af mínu uppáhaldi og heitir hann Herra Varir (ekki deyja úr hlátri...)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2008 | 10:02
Allt á fleygi ferð
Það er búið að vera mjög annasamt hjá okkur undanfarið. Viktorían var að fá sér nýjan bíl úr kassanum sem pabbi hennar reddaði henni á svaka góðum díl. Hún fékk sér svarta Skoda Fabiu. Flottur bíll og nú er beðið eftir að klukkan verði 23:59 á laugardaginn því þá ætlar hún að sækja ökuskírteinið sitt.
Við erum búin að ráða flísara í vinnu til okkar við að flísaleggja á milli eldhúsbekkja og svo gólfið. Allar flísar komnar í hús svo nú er bara vinna framundan því við þurfum að koma öllum húsgögnum fyrir! Þó svo að herbergin séu stór þá rúma þau ekki alla stofuna, sjónvarpsstofuna, ganginn og holið á einu bretti!! Þetta er framtíðarvandi.
Við Stefán fórum heljarstökk afturábak og hliðarstökk um leið í fyrradag. Við sáum amerískan lazy boy til sölu og þetta var akkúrat stóllinn sem Stefán er búinn að dreyma um í langan tíma. Við skelltum okkur á þetta og sóttum.
Nú er sko nóg af sætum fyrir alla að góna á sjónvarpið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2008 | 15:53
Í dag er dagurinn
Í dag er eitt ár síðan ég lenti í því að keyrt var aftan á mig. Mér finnst lítið vatn runnið til sjávar því enn er ég illa haldin af verkjum í öxlinni og ekkert útlit fyrir að það lagist á næstunni.
Hef verið hjá sjúkraþjálfa sem mér hefur fundist gera meira ógagn en gagn! Kannski það sé vegna þess að hann er að hræra í taugaendum og fleiru sem framkalla þessa verki.
Ég fór ekki í blakið í vetur því ég hef ekki verið með heilsu í það og er tæpast með heilsu í Pilates en reyni að þrauka því þar er ég á mínum hraða og minni getu.
Það er ótrúlegt hvað svona aftanákeyrslur eru slæmar. Mest vorkenni ég þó manninum mínum sem þarf að þola ýmislegt en ég er hætt að "væla" í honum um mína verki. Ég tek verkjalyf þegjandi og hljóðalaust en verst hvað skapið fer illa þegar manni líður svona illa. Get ekki lyft neinu, haldið á innkaupapokunum því þá fara verkirnir að bögga mig meira en venjulega.
Jæja. Ég horfi samt fram á bjarta tíma, ekki þýðir að leggjast í kör yfir þessu.
Svo má ekki gleyma því að yndislega tengdamóðir mín á afmæli í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2008 | 00:43
2. sætið
Ég ákvað að taka þátt í keppni á www.ljosmyndakeppni.is
Fyrirsögnin var; "Dyragættin" og lýsingin var; "Taktu mynd af því sem þér dettur í hug að geti mætt þér í dyragættinni!"
Ég fór á hugarflug eins og svo oft áður og sendi inn "Fortíðardraugur"
Hún mældist það vel fyrir að hún endaði í 2.sæti. Held að ég geti bara vel við unað. Stefni á toppinn....einhvertímann, tek þetta á mínum hraða
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.9.2008 | 18:57
Abstrakt 2
Ég hef ágætis humyndarflug og ímyndunarafl. Finn út úr hinu ýmsu...
Þetta er ein tilraunin mín til viðbótar. Ég tek það fram að ég hef nánast ekkert gert við þessa mynd. Hún kemur bara beint úr "kúnni"
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.9.2008 | 22:29
Abstrakt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2008 | 18:10
List
Hvað er skilgreint sem list?
Það er að sjálfsögðu vítt samhengi á þeirri túlkun og ekki eru allir sammála hvað sé list og hvað ekki.
Ég fór á tilraunastig 3...eða meira og fiktaði aðeins við þetta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2008 | 09:06
Fortíðardraugur
Hver kannast ekki við þegar fortíðardraugarnir banka uppá?!
Þegar ég var að alast upp átti ég mína góðu og slæmu daga. Væntanlega eins og flest allir.
Suma daga hellast yfir mig fortíðadraugarnir og eiga þeir til að hrjá mig alveg svakalega. Næ nú yfirleitt að hrista þá af mér og ná gleði minni á ný.
Mig langaði til að túlka fortíðardraug í mynd. Ég fór á hugarflug og er þetta útkoman.
Sumum finnst þetta geðslegt en mér finnst þetta mjög góð túlkun á fortíðardraug. Litla stúlkan leikur sér. Er ein og enginn nálægur. Enginn til að tala við nema dúkkan eða gæludýrið sem hlusta þegjandi og hljóðalaust á einsemdar vælið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2008 | 16:58
7,1 á richter í Hafnarfirði!
Ég lét plata mig út í að fara í Fit Pilates sem er í Heilsuakademíunni. Ég vissi ekki í raun á hverju ég átti von en vonaði þó að þessar æfingar geti skilað mér aðeins bættari líðan í stoðkerfinu sem er ekki upp á marga fiska þessa dagana.
Með sjálfsöryggið í lagi skundaði ég inn í Lækjaskóla og tilbúin til að takast á við heilan klukkutíma í styrkjandi rólegum æfingum.
Þetta byrjaði ágætlega allt saman, rólegar og þægilegar æfingar sem ekki reyndu svo svakalega á svo þetta var allt í áttina þegar 10 mínútur voru liðnar af tímanum.
Eitthvað fóru æfingarnar að harðna og erfiðara og erfiðara var að fylgja kennaranum. Það kom svo að magaæfingum og áttum við að gera hinar ýmsu kúnstir og eitthvað voru mínir magavöðvar ekki að fylgja nægilega eftir en ég ákvað að reyna enn harðar en áður og uppskar ég bara þennan svakalega skjálfta í líkamanum við að þrjóskast við að halda mér uppi. Ég get svo svarið fyrir það að þetta hefði örugglega fundist á jarðskjálftamælum ef þeir hefðu verið að fylgjast með!
Ég var orðin örvæntingafull með tímann, fannst hann ekki hnikast úr stað og enn voru 40 mínútur eftir af tímanum. Jafnvægisæfingarnar voru bara skrambi erfiðar og ég tala nú ekki um þessar kúnstir sem maður átti að gera jafnframt því. Eftir að hafa dottið nokkrum sinnum af bolta-skömminni ákvað að ég skyldi ekki gera kúnstirnar því nógu erfitt var að halda jafnvæginu. Kúnstirnar kæmu síðar.
Dagurinn í dag byrjaði svo ágætlega, ekki mikið af harðsperrum...til að byrja með. Skaust með Dísina upp á Barnaspítala í reglulegt krabbameins-tékk, heim með hana og á fund og þegar ég var að fara á fundinn fann ég að harðsperrurnar væru að harðna verulega.
Af fundinum fór ég beint í búðarflæking inn í Reykjavík og þá uppgötvaði ég að vöðvar líkamans eru fleiri en mig óraði!! Ég get svo svarið fyrir það að mér finnst ég vera með harðsperrur í leginu sjálfu!!!!
Ég gef mig samt ekki. Ég ætla að mæta aftur á föstudag í Fit Pilates og ég SKAL koma mér í hæfilegt form.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.9.2008 | 12:22
Suma daga á maður ekki að fara frammúr!
Þegar maður er mamma í 100% starfi, eru ekki mörg prósent eftir til að vinna...eða hvað!
Ég þurfti aðeins að redda nokkrum hlutum áður en ég fór heim í gær svo ég ákvað að gera það í matarhléinu mínu. Ég fór út rétt fyrir 12 til þess að vera komin aftur fyrir 1 því ég vinn jú bara til tvö.
Ég náði að redda því sem ég ætlaði mér en eitthvað var tíminn fljótur að líða og áður en ég vissi af var klukkan bara ORÐIN tvö og ég ekki enn komin í vinnuna aftur. Það var því spýtt í lófana og brunað heim. Ég ætlaði að koma við í búð til að kaupa eitthvað gott í matinn en náði því ekki og þar sem ég átti að taka við barni í fóstur líka klukkan 2, var ekki möguleiki á að fara í búðina.
Ekki tók betra við þegar ég kom heim. Ég fékk skyndilegt kast og þurfti nauðsynlega að taka fiskabúrið í gegn. Ekki lét ég þar við sitja heldur ákvað ég að nú skyldi stofunni breytt til muna sérstaklega þar sem það er ekki æskilegt að ég ýti eða lyfti þungum hlutum eða fari offörum vegna astmans. En svona er ég og get einhvernvegin ekki breytt því!
Fiskabúrið var tæmt og þrifið en á meðan tæmingu stóð, færði ég til öll þau húsgögn sem ég mögulega gat þar til fiskabúrið yrði tómt svo ég gæti fært skenkinn líka. Þegar búrið var orðið tómt var það flutt á nýjan stað með aðstoð Dísarinnar minnar sem stóð sig eins og hetja því búrið er skrambi þungt með 20 kg af sandi ofaní.
Astminn var farinn að segja til sín og virkuðu astmalyfin ekki baun en ég beit á jaxlinn og hélt áfram. Ég YRÐI að vera búin að þessu öllu áður en minn maður kæmi heim því svona tilfærslur eiga ekki sérlega mikið við hann frekar en Steve Wonder
Næst var að fylla búrið af vatni. Sama 10 metra slanga var notuð og þurfti ég eitthvað að finna út úr því hvernig ég ætti að troða 10mm slöngu á kranann svo ekki færi allt út um allt. Eftir mikið bras og vatnsskvettur út um allt, taldi ég mig hafa lausnina. Ég skil slönguna eftir og fer fram í stofu til að fínpússa staðsetningu húsgagna og ryksuga undan öllu.
Þegar ég slekk á ryksugunni eftir drykklanga stund heyri ég vatnsgutl í eldhúsinu og fer til að kanna málin. Það eina sem gerðist var að ég þurfti að fara í vaðstígvél því það fór ekki DROPI í búrið heldur fór ALLT á gólfið! Ég mátti gjöra svo vel að slökkva á krananum og byrja að þurrka nokkra lítra af vatni af gólfinu en þegar ég opnaði ruslaskápinn, kom flóð út úr honum. Alveg frábært!
Ég ákvað að taka þetta í mínar hendur og handmata vatnið í slönguna...svona næstum. Ég var á þrjóskuskeiðinu líka og þvertók að notast við skúringafötur til að fylla búrið (sem hefði tekið skemmri tíma) því ég hefði þurft að lyfta henni fyrir ofan höfuð og það hefur slæm áhrif á öxlina sem hefur ekki verið upp á sitt besta undanfarnar vikur.
Áður en ég vissi var græni bíllinn hans Stefáns mættur á heimreiðina og húsið var á HVOLFI. Allt draslið sem kom við allar tilfærslurnar voru í sófum og stólum víðsvegar um stofuna, eldhúsið á hvolfi af fiskadóti, stofuborðið fullt af myndum og öðrum varningi sem hafði ekki fengið sitt pláss ennþá. Eldhúsgólfið enn blautt eftir vatnssullið og af því sem bættist við að reyna að troða vatni í allt of litla slöngu.
Stefán kom inn og það fyrsta sem hann sagði þegar hann leit í kringum sig: "Jæja, Helga mín, ertu nú komin á breytingaskeiðið!"
Inn kom þessi elska með risa stóran blómvönd í tilefni dagsins. Hann spurði mig svo hvað hann fengi að borða og ég svaraði því um hæl að ég ætlaði að bjóða honum og krökkunum út að borða.
Með það skrúfaði ég frá af fullum krafti á krananum en hafði gleymt því að ég hafði tekið sturtuhausinn af krananum svo það var bara slangan sem var opin og við það sprautaðist vatnið í langri og "fallegri" bunu yfir mig alla og það sem fötin mín héldu ekki, fór á eldhúsgólfið. Enn og aftur.
Stefán aðstoðaði mig við að koma fiskabúrinu í gang, fór í önnur föt og héldum af stað út að borða.
Ekki tók betra við.
Enduðum á Piza Hut. Ekkert að gerast inn í búllunni svo við áttum að fá topp þjónustu. Reyndin var önnur.
Við fengum ekki þjónustuna svo við urðum að sækja okkur hana. Pöntuðum eina stóra pizzu en fengum ekki rétta pizzuna, vatnið kláraðist og aldrei kom nokkur framhjá til að við gætum hugsanlega fengið þjónustu. Afgreiðslustelpan fór ískyggilega í taugarnar á mér hvað varðar framkomu og klæðaburð (klæðaburðurinn fór bara í taugarnar á mér út af viðmóti dömunnar) og þegar kom að því að borga vorum við ekki einusinni spurð hvernig okkur hefði líkað eða hvort var eitthvað að. Ég var syngjandi brjáluð yfir þessu öllu saman svo ég strunsaði út og búin að heita sjálfri mér því að koma ekki þangað aftur í bráð....mjöööög langa bráð!!
Fórum heim og ég hélt áfram að taka til og gera heimilið að heimili. Lítið varð um kósý kvöld....en ég bæti honum það upp síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
33 dagar til jóla
Myndaalbúm
Tenglar
áhugavert
skoða þetta
- Flickr.com myndirnar mínar á flickr
- Margrét frænka Athygliverð stelpa
- Eyrún og Jobbi verkfræðingar með meiru
- Ólöf Helga sæta músin mín