Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
29.12.2008 | 11:49
Hið ljúfa líf
Síðustu dagar hafa verið mjög ljúfir. Við áttum notalegt aðfangadagskvöld og góðan eftirrétt....aðalrétturinn klikkaði svo um munaði!
Keyptum okkur úrbeinaðan lambahrygg sem var búið að setja fyllingu í og troða í net. Leit rosalega vel út en eitthvað var lyktin skrítin þegar þetta var farið að hitna í ofninum. Keyptum þetta 23. des svo þetta gat ekki verið ónýtt.
Eldaði þetta samviskusamlega og bar svo á borð og ekki skánaði lyktin þegar þetta var full eldað. og enn síður skánaði bragðið!!!
Kjötið var bæði skemmt og með þráabragði. Bara viðbjóður. Enduðum á því að borða eftirréttinn og láta þar við sitja. Ætlaði samt ekki að láta verslunina komast upp með þetta svo ég geymdi pakkningarnar en varð að henda kjötinu og koma því út í tunnu. Svo slæm var lyktin.
Skruppum svo norður annan í jólum og hringdi svo í verslunina á laugardeginum og talaði við verslunarstjórann. Held að niðurstaðan verði ágæt því þeir ætla að bæta þetta eitthvað upp. Eins gott því þegar maður er búinn að elda á aðfangadagskvöldi er ekki beinlínis hægt að stökkva út í búð til að redda nýju kjöti!!
Sem betur fer gerist svona ekki oft. Það verður bara þeim mun betra á gamlársdag.
Fór með gamalli vinkonu á rúntinn í gær að taka myndir. Hér eru svo nokkrar ágætar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.12.2008 | 01:23
Sá rauðklæddi staðinn að verki!
Fátt er meira rætt um á þessu heimili en rauðklæddi gjafmildi karlinn. Á hverjum morgni er komið hlaupandi upp í rúm til okkar til að sýna það sem sveinki kom með í skóinn. Oft hefur maður velt því fyrir sér hvers vegna í ósköpunum maður er að skrökva svona að börnunum. Þetta er svo mikill skellur þegar þau fatta þetta sjálf að maður verður stimplaður sem lygalaupur.
Síðustu nótt (aðfaranótt laugardags) um kl 1:30 var sveinki á ferð. Embættismaðurinn fer inn í herbergi dömunnar og kyssir hana á ennið til að athuga hvort hún væri ekki örugglega sofandi því um þetta leyti er hún oft að vakna til að fara að pissa. Ekki virtist hún bæra á sér svo gjafmildi karlinn fór því fram til að finna "skóvöruna".
Sveinkinn læðist aftur inn með nokkra blýanta af hinum ýmsum stærðum og gerðum og bréfsefni sem ekki komst í skóinn. Blýantarnir runnu ljúft ofan í skóinn en hann varð að hagræða bréfsefninu og lagði það svo við hliðina á skónum. Að svo búnu lét hann sig hverfa.
Um morguninn kem ég svo fram og þar bíður mín ískalt augnarráð og litla ráðskonan mín segir hranalega við mig um leið og hún lyftir upp bréfsefninu:
Mamma, HVAÐ er þetta til dæmis?
mamman: uuuh....má ég sjá....ég veit ekki
Sunna: þú ættir nú að vita það. Þú komst með þetta SJÁLF í gær og settir við skóinn minn
mamman: (gjörsamlega í hnút) HA ÉG?! neih..ég gerði það ekki!
Sunna: JÚ, ÉG SÁ ÞIG. Hvað er þetta (og veifaði þessu aftur framan í mig)
mamman: sko...sjáðu nú til... (reyndi eins og ég GAT til að finna hentuga lygi) ...ég heyrði eitthvað hljóð inn í herberginu þínu og ég ákvað að athuga þetta og þá sá ég þetta á gólfinu svo ég fór með þetta fram til að athuga hvað þetta var og svo skilaði ég þessu strax aftur.
sunna: (með hneykslun og vantrúun í röddinni) jahá...einmitt það já
og með það snéri hún sér frá mér og leit ekki á mig aftur. Mér fannst réttast að ég renndi mér bara aftur upp í rúm til að jafna mig á þessum lygum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.12.2008 | 22:46
jólamerkimiðarnir í ár
Þar sem maður er svona handónýtur í kroppinum þá verður maður að láta til sín taka á öðrum vígsstöðvum og urðu jólamerkimiðarnir í ár eitthvað sem mér fannst ég verða að gera sjálf.
Þetta er kannski ekki mjög frumlegt eða jólalegt en kannski eitthvað til að gleðja augað og er líka kannski örlítið öðruvísi en þessu keyptu miðar. Auðvitað skreytti maður hvern og einn pakka líka.
Afraksturinn má sjá hér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.12.2008 | 22:08
Unglingarnir og samtíminn.
Ekki það að mér finnst ég vera neitt gömul en það er margt sem hún Viktorían mín er að gera sem hneykslar mig. Ég skil ekki (get ég sagt núna) hvernig henni datt til hugar að fá sér gat í vörina svona sem dæmi. Þetta var ekki eitthvað sem ég hefði gert hér í "dentid" (maður telur sig trú um það allavega)
Um daginn kom þessi elska svo til mín með merkilega frétt. Hún var í skólanum í enskukennslu og var kennarinn að leyfa krökkunum að hlusta á eitthvað stórmerkilegt. Hún var svo uppveðruð af þessum upplýsingum að hún hélt ekki vatni.
"Mamma, enskukennarinn var að láta okkur hlusta á geisladisk. Reyndar var þetta dálítið stærri en geisladiskur...eiginlega bara svona RISA STÓR geisladiskur og hann var svartur og hægt að spila báðu megin!"
Þið getið ímyndað ykkur hvað ég hló dátt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2008 | 11:54
Milli jóls og nýárs!
Ég beið í röð í gær. Eldri kona var á undan mér og fór hún að afgreiðslunni til að borga. Ég virti hana fyrir mér og þetta var glæsileg eldri kona. Vel til höfð og flott. Hún réttir afgreiðsludömunni kortið sitt og segir svo jafnframt við konuna að hún þurfi að koma aftur og þá helst á milli jóls og nýárs.
Ég leit vantrúuð á konuna og beið eftir svipbrigðum afgreiðsludömunnar en annað hvort tók afgreiðsludaman ekki eftir þessu eða hún spilaði bara með og lét sem ekkert væri. Á meðan átti ég bágt með hláturinn.
Var með þetta á heilanum í allan gærdag.....MILLI JÓLS OG NÝÁRS
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2008 | 16:20
Unglingurinn alvarlega veikur!
Elsta prinsessan mín er alvarlega veik. Hún er reyndar búin að vera veik í töluverðan tíma en fyrst veiktist hún þegar hún var 13 ára.
Ég var alltaf að vonast til að þessi slæma veirusýking myndi fara sjálfkrafa án læknisaðstoðar svo ég gerði ekkert í þessu. Sýking þessi hefur stig magnast en kom þó hlé á hana í smá tíma þegar hún var 15 ára en það hlé stóð stutt.
Stundum hefur ástandið verið svo slæmt að ég hef verið á ystu nöf við að hringja á sjúkrabíl. Gef henni reglulega verkjalyf til að minnka verkina sem þessi sýking veldur en það stoppar yfirleitt stutt. Verst er þessi veira þó snemma á morgnana og svo seint á kvöldin. Þá er eins og barnið verði andsetið og breytist í varúlf.
Ég hef haft miklar áhyggjur af því að þessi veira smiti útfrá sér en hefur ekki gert það hingað til. Ekki get ég sagt það að ég óttist ekki smit í systurnar sem eru yngri og þá sér í lagi þessa sem er 14 ára. Hún má engan veginn við því að veikjast svona heiftarlega af þessari sýkingu. Held ég leggist á bæn um að hún sleppi.
Ekki er gott að vita hvort þessi yngsta fái þessa veirusýkingu en miðað við genin þá gæti það stefnt í það.
Nú er daman mín elsta orðin 17 ára gömul og þessi sýking virðist ekki ætla að hverfa. Ég er komin á ystu nöf yfir þessu og hef hug á að fara með hana til læknis. Eitthvað verður að gera. Fjölskyldan afber þetta ekki lengur því barnið er svo verkjað af þessari sótt að ekki er hægt að umgangast hana.
Ég ákvað að leita lausnar og hringdi í lækninn til að fá ráleggingar. Hann hlustaði vel og vandlega á sjúkdómslýsinguna og svaraði svo:
"Helga, mín kæra. Þessi sýkill heitir UNGLINGAVEIKI og er hann því miður ólæknanlegur. Það eina sem hægt er að gera er að bíða eftir að þetta líði hjá en það gæti tekið ár í viðbót. Hinsvegar get ég huggað þig á því að þetta smitast ekki á milli barna"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.12.2008 | 12:24
Ice Age: The Meltdown
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.12.2008 | 20:49
Göngutúr á Álftanesi
Náði nokkrum góðum myndum í þessu líka æðislega veðri sem við fengum.
Meira í albúminu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.12.2008 | 11:40
Blessuð sé minning hans!
Einn fiskurinn minn hann Silfri er búinn að vera veikur. Þetta er stór slörfiskur og rosalega flottur. Orðinn mjög stór. Hann fór að veikjast fyrir um viku síðan og hefur farið versnandi.
Hér er mynd af honum. Afmyndaður greyið, svo bólginn í framan og hreistrið farið að losna af honum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.12.2008 | 17:47
Gamlir taktar rifjaðir upp.
Sagt er að neyðin kennir nakinni konu að spinna. Ekki það að ég sé nakin en mér hinsvegar blöskrar verðið á smákökunum í búðinni.
Ákvað að rifja upp gamla takta og baka smákökur í þetta skiptið. Ég hef ekki hlakkað til jóla í mörg ár, frekar kviðið fyrir ef eitthvað er og þessi jól eru svosem engin undantekning. Mér finnst bara afskaplega leiðinlegt að geta ekki gert meira á heimilinu en raun ber vitni en öxlin og bakið leyfa mér ekki að halda áfram ótrauð.
Vissulega er maður "hlýðinn" og hlífir sér ekkert því ég þoli þetta ástand ekki mikið lengur. Ég fæ að kenna á því í nokkra daga en það verður bara að hafa það. Verkjalyfin koma sér vel.
Því til sönnunar að ég hafi bakað ákvað ég að smella myndum af afrakstrinum. Ég er svo sannarlega betri í myndunum en bakstrinum því vandræðin eru oft á næsta leyti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
336 dagar til jóla
Myndaalbúm
Tenglar
áhugavert
skoða þetta
- Flickr.com myndirnar mínar á flickr
- Margrét frænka Athygliverð stelpa
- Eyrún og Jobbi verkfræðingar með meiru
- Ólöf Helga sæta músin mín